Jack Nicholson er 85 ára og hefur leikið í meira en 70 kvikmyndum á ævi sinni. Hann hefur hlotið 12 Óskarstilnefningar og er sá karlleikari sem hefur fengið flestar slíkar auk margra annarra verðlauna. Hann var gjarnan þekktur sem hjartaknúsari enda mikill kvennamaður. Nicholson á sex börn með fimm konum en sonur hans, Ray Nicholson, fetar nú í fótspor föður síns í kvikmyndaheiminum í nýrri mynd sem nefnist Out of the Blue.

Jack Nicholson hætti kvikmyndaleik 2010 og hefur lítið sést til hans síðan. Hann býr einn á heimili sínu í Beverly Hills og lifir rólegu lífi. Vinir hans hafa áhyggjur af því að hann deyi sem einsetumaður eftir litríkt líf sem ein skærasta kvikmyndastjarna allra tíma. Jack hefur aldrei tilkynnt opinberlega að hann sé hættur að leika en ekkert hefur sést til hans í meira en tvö ár. Margir hafa talið að hann þjáist að heilabilun en hann hefur sjálfur fullyrt að heilinn sé jafn skarpur og hann hefur alltaf verið. Hann sé einfaldlega orðinn vandlátur á hlutverk.

Jack fékk Óskarsverðlaun fyrir leik í As good as it Gets. Hér er hann með leikkonunni Helen Hunt sem einnig fékk Óskarinn. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Jack átti óvenjulega æsku. Móðir hans, ógift sýningarstúlka, June Frances Nicholson, eignaðist hann átján ára en foreldrar hennar tóku barnið að sér og sögðu móðurina vera systur hans. Þannig var það í næstum fjóra áratugi en árið 1974 afhjúpaði tímaritið Time sannleikann. Leikarinn vildi ekki viðurkenna að sú uppljóstrun hefði orðið honum áfall.

Jack fór í leiklistarnám og árið 1958 fékk hann fyrsta hlutverkið í unglingamynd sem nefnist The Cry Baby Killer. Ferill hans tók strax kipp og hann varð fljótt einn þekktasti leikari heims. Hann hefur leikið í vinsælustu bíómyndum sem gerðar hafa verið og listinn er langur. Síðasta myndin var How Do You Know? en þar á undan voru þekktar myndir eins og Something's Gotta Give, As Good as It Gets og The Bucket List. Ein þekktasta myndin er þó án efa Gaukshreiðrið.

Jack ásamt syni sínum, Ray Nicholson, sem nú fetar í fótspor föður síns á hvíta tjaldinu. Hann leikur í myndinni Out of the Blue.mynd/GETTY

Ástkonur hans hafa verið leik- og söngkonur ásamt fyrirsætum líkt og Michelle Phillips, Jill St. John, Winnie Hollman, Bebe Buell, Lara Flynn Boyle, Kate Moss, Paz de la Huerta og Rebecca Broussard. Hann kvæntist aðeins einni konu, leikkonunni Söndru Knight. Hann átti síðar í umdeildu ástarsambandi við Anjelicu Huston. Í bók um Jack Nicholson eftir Marc Eliot segir að hann hafi eytt miklum tíma á hátindi ferilsins í djamm og helst allan sólarhringinn.

Jack sagði í viðtali fyrir nokkrum árum að hann vildi einungis gera bíómyndir sem hreyfa við fólki, myndir um tilfinningar. Síðan bætti hann því við að unga fólkið vildi bara sjá myndir með sprengingum og látum. „Ég mun aldrei gera svoleiðis mynd,“ sagði hann. Í viðtali við NBC sagðist leikarinn sífellt vera að lesa yfir handrit.

Jack Nicholson var síðast myndaður á leik með Lakers í Los Angeles í október 2021. Vinir Jacks segja að börnin hans komi reglulega í heimsókn en þau eru eina tenging hans við umheiminn í dag. Glaumgosinn hefur dregið sig í hlé.