„Hann pabbi minn, Björn Magnússon, hefur verið áhugamaður um hreindýr í árafjöld. Hann er auðvitað í skýjunum með hreindýrskálfana á heimilinu, þá Garp og Mosa, og dæsti einn daginn stundarhátt: „Já, draumar geta ræst“. Hann sótti eitt sinn um leyfi til að halda grænlenska hreindýrahjörð á Íslandi, en fékk neitun. Svo kom þetta upp í hendurnar á honum og víst að kálfarnir hefðu aldrei lifað af án hans.“

Þetta segir Ásdís Sigríður Björnsdóttir, ferðaþjónustubóndi og átta barna móðir á bænum Vínlandi í Fellabæ, vestan Lagarfljóts.

Ásdís hefur verið hreindýramamma síðan í fyrravor.

„Þá var systir mín í vélsleðaferð uppi á heiði og rakst á tvo agnarsmáa og móðurlausa hreindýrskálfa. Engin önnur hreindýr voru nærri og þegar vélsleðafólkið kom aftur að kálfunum um klukkustund síðar voru ekki heldur nein hreindýr í augsýn. Því var brugðið á það ráð að hringja í pabba og leita ráða. Sá var ekki lengi að hugsa sig um og sagði: „Komið með kálfana til mín og sjáum hvort okkur takist að halda í þeim lífinu“. Þessir umkomulausu hreindýrskálfar voru svo pínulitlir að þeir komust fyrir í bakpoka ferðalanganna og strax var ljóst að þeir voru ekki sammæðra, því Garpur var um þriggja daga gamall og Mosi um viku eldri,“ upplýsir Ásdís.

Ásdís Sigríður Björnsdóttir er ferðaþjónustubóndi á Vínlandi sem er við síðasta afleggjarann áður en keyrt er inn í Fellabæ við Lagarfljót. Þar hefur nú opnað fyrsti hreindýragarðurinn á Íslandi. MYND/AÐSEND

Broddur og saltaður rjómi

Fyrstu nóttina voru hreindýrskálfarnir litlu í bílskúrnum hjá Birni en það gekk nú ekki vel.

„Þar sem við hjónin keyptum jörð með skóglendi hér á Vínlandi fyrir fjórum árum var ákveðið að koma með kálfana til okkar og við höfðum líka húsaskjól sem ég hafði hugsað fyrir kamínu og til að sitja við eld, en því var snarlega breytt í hreindýrahús. Við tók svo óskapleg vinna,“ greinir Ásdís frá.

Hún segir hreindýr með eindæmum viðkvæmar skepnur og algengt að þau drepist úr hræðslu þegar þau óttist um líf sitt, eins og þegar þau eru elt á vélsleða, en búið sé að finna lyf sem kemur í veg fyrir slíkt sé því sprautað strax í dýrin.

„Það er erfitt að segja hvað varð um mæður kálfanna, en ekki er óalgengt að hreindýrskálfar finnist einir og yfirgefnir af einhverjum orsökum. Í tilviki Mosa og Garps eru líkur á að snjósleðafólk hafi fælt hjörðina og kálfarnir ekki getað hlaupið á eftir, en eftir á kom í ljós að kálfarnir voru sýktir af mjög slæmum hnýsli og mæðurnar gætu hafa drepist úr því, því nýfæddir hreindýrskálfar drekka af spena og hafa fengið hnýsilinn í meltingarkerfið með móðurmjólkinni,“ segir Ásdís.

Fyrstu mánuðina stóð líf kálfanna Garps og Mosa oft tæpt.

„Til að byrja með þurfti að finna út úr því hvað ætti að gefa þeim að drekka. Þá var hringt á kúabú og athugað hvort til væri broddur, sem er feit og fyrsta mjólkin úr nýbornum kúm. Síðan var broddi safnað saman á bæjunum og meira að segja keyrt alla leið í Skagafjörð eftir broddi. Allt gekk það vel og kálfarnir brögguðust um tíma, en svo fóru þeir að veikjast og fá drullu. Var þá brugðið á það ráð að gefa þeim lamba- og kálfaduft og blanda gæsaeggjum út í, sem og ýmislegt fleira, en þeir Garpur og Mosi hressust lítið af því. Á endanum hafði pabbi samband við Sama sem hann hafði kynnst í Lapplandi og þeir ráðlögðu honum að gefa kálfunum lambaduft og saltaðan rjóma að drekka, því hreindýramjólkin er sölt,“ útskýrir Ásdís sem gaf þeim lýsi upp á hvern dag og sýklalyf þegar í ljós kom að þeir væru með hnýsil.

„En svo versnaði þeim enn og aftur og þá reyndust þeir vera með hnýsil sem er tiltölulega nýkominn í íslensk hreindýr og talinn koma úr gæsum. Þá þurftu þeir tíu sinnum sterkari sýklalyfjaskammt.“

Björn gefur hér hreindýrskálfunum pela með söltuðu rjómablandi, sem minnir á hreindýramjólk, og gerði Garpi og Mosa gott. MYND/FANNAR MAGNÚSSON

Mega ekki fara aftur út í náttúruna

Á tímabili leist dýralækninum á Héraði svo á að Mosi hefði það varla af. Hann var lengi óþroskaðri og minni vöxtum en Garpur, og horn hans voru minni.

„En svo tók Mosi vaxtarkipp og nú eru þeir svipað stórir. Okkur tókst að hjúkra þeim til bata og losa þá við hnýsilinn og þeir virðast hafa það mjög gott.“

Ásdís segir stundum spurt hvers vegna Garpi og Mosa sé ekki sleppt út í náttúruna, nú þegar þeir eru orðnir frískir, en sannleikurinn sé sá að ekki megi sleppa villtum dýrum í náttúruna sem verið hafa í eldi hjá mannfólki.

„Við vissum alltaf að kálfarnir yrðu aflífaðir ef við fengjum ekki leyfi til að hafa þá, en á sama tíma eru lögin þannig að ekki má fanga hreindýr, sem við gerðum ekki; önnur lög banna að ganga í burtu frá deyjandi dýri, og einnig er bannað að sleppa dýrum aftur út í náttúruna. Allt var þetta því á gráu svæði en nú höfum við leyfi fyrir því að hafa kálfana og einbeitum okkur að því að láta þeim líða sem allra best, förum með þá í göngutúra og bjóðum þeim góða aðstöðu til beitar í skóglendi okkar. Þeir eru fyrir löngu orðnir hluti af heimilishaldinu og óborganlegt þegar Garpur var lítill og elti pabba alla leið inn í stofu til mín,“ segir Ásdís og hlær.

Pétur, sonur Ásdísar, knúsar hér litla Garp sem þurfti mikla umhyggju. MYND/FANNAR MAGNÚSSON

Einmana hreindýrskálfar

Ásdís vissi fátt um hreindýr þegar hún varð svo óvænt hreindýramamma.

„Hreindýr eru vanalega stygg og hlaupa á brott þegar styggð kemur að þeim. Því kom mér í opna skjöldu hversu miklir persónuleikar og félagsverur þau eru. Kálfarnir urðu fljótt mjög hændir að okkur og komu upp að okkur til að láta klappa sér og strjúka, sérstaklega Garpur sem er með sterkan persónuleika og harðari af sér en Mosi. Hann tók strax ástfóstri við pabba sem varð hans mamma og mátti einn gefa honum. Þegar hann varð eldri náði hann að stökkva yfir girðingar og sleppa út en alltaf kom hann aftur heim og kallaði til okkar; vildi láta vita af sér,“ segir Ásdís og rifjar upp aðra kæra minningu.

„Yfir sumartímann stóðu þeir og góndu á krakkana leika sér á trampólíninu í garðinum við íbúðarhúsið, vildu vera nálægt og vera með. Svo stækkuðu þeir og voru færðir í stærra hólf í skógarbeitinni okkar og þá fannst mér þeir hálf einmana þegar ég fór til þeirra. Úr augum þeirra skein söknuður þegar ég var á hraðferð og þá mændu þeir á mann sorgmæddum augum. Tengslin urðu því fljótt mikil og kær.“

Það sló á einmanaleikann að um þetta leyti fór að bera á heimsóknum gesta sem vildu skoða Garp og Mosa og fyrir jólin komu hundruð manna á degi hverjum.

„Þá tókum við eftir að þegar fólk klappaði þeim á kollinn brugðust þeir við með leik og því að stanga frá sér. Við urðum þá hrædd um að börn gætu meitt sig en nú eru þeir komnir með heljarinnar horn en hnoðast hvorki né stanga. Þeir eru blíðir og hafa í gegnum tíðina þurft mikla umhyggju og knús. Þegar þeir voru litlir hættu þeir á tímabili að drekka og við vissum ekkert hvað væri til ráða. Þá mundi pabbi eftir að hafa séð mæður sleikja kálfa sína og að þeir þyrftu örvun þeirra til að geta pissað og kúkað. Því keypti hann svamp sem hann bleytti í heitu vatni, strauk þeim með svampinum og þá fór allt í gang hjá þeim aftur.“

Heimilisfólkið á Vínlandi hefur myndað sterk tengsl við hreindýrakálfana og hér má sjá Garp knúsast utan í Ásdísi. MYND/AÐSEND

Tvö börn úr óvæntri átt

Í sumarbyrjun var Hreindýragarður opnaður í Vínlandi sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi.

„Það eru auðvitað hreindýr í Húsdýragarðinum en þegar ég hef farið þangað vilja hreindýrin ekkert af gestunum vita og halda sig í fjarska nema þau séu inni að éta. Hér er þetta öðruvísi, Garpur og Mosi koma þegar kunnuglegar raddir kalla, og við höfum leyft fólki að gefa þeim Cheerios úr lófa og spari fá þeir rúgbrauð sem er í uppáhaldi. Fólk kemst í návígi við kálfana og þeir eru ljúfir og geðgóðir. Við vitum auðvitað ekkert hvernig þeir verða um kynþroskaaldurinn en finnum þá lausn á því. Það væri draumur að vera með hreindýrastelpu og sorglegt að annar kálfur sem við fengum í vor drapst, en hann var stelpa,“ segir Ásdís sem á sér fleiri hreindýradrauma.

„Það er eins og fallegt jólakort að horfa á hreindýrskálfana í snjónum. Við erum að byrja að venja þá á múla og draumurinn að kenna þeim á sleða og fara með þá í jólaferð niður í bæ.“

Ásdís er borinn og barnfæddur Vopnfirðingur. Maður hennar, Ólafur Björnsson, stöðvarstjóri Bílaleigu Akureyrar, var bóndi undir Eyjafjöllunum þegar þau kynntust og þau bjuggu lengi á Selfossi.

„Við eigum átta börn saman en nú eru flest börnin að verða uppkomin og þrjú eftir heima. Það er tómlegt á bænum þegar börnin tínast úr hreiðrinu og erfitt. Ég veit ekki hversu lengi ég var að læra að elda minni matarskammta og sat þá uppi með mat sem dugði alla vikuna. Það má segja að ég hafi fengið Garp og Mosa í sárabætur; tvö börn úr óvæntri átt sem þurftu á móður að halda. Þeir þekkja raddirnar okkar og gaman að geta kallað á þá: „Komiði strákar!“ og þeir koma eins og hlýðin börn.“

Hreindýragarðurinn er opinn alla daga frá klukkan 11 til 17, en ferðalöngum er einnig velkomið að hringja í síma 842 2519 ef þeir eru í nágrenninu og langar að koma við. Hreindýragarðurinn er líka á Facebook og Instagram @icelandreindeersog @vinland_guesthouse. ■