Íþróttaviðburðir ættu einungis að hafa áhrif á líf og líðan þeirra einstaklinga sem áhuga hafa á þeim. Það ætti nefnilega að teljast sjálfgefið að þeir sem áhugalausir eru um íþróttir verði ekki fyrir miklum ama vegna íþróttaviðburða. RÚV sér samt fyrir því að íþróttaviðburðir riðla lífi fólks sem þráir ekkert meir en að leiða þá hjá sér.

Gott dæmi um þetta er boltaleikur milli Íslands og Frakklands sem fram fór hér á landi á föstudag. Ekki var hægt að setjast niður og njóta kvöldfréttatíma sjónvarps því hann hafði verið færður seint á dagskrá til að öruggt væri að enginn missti af leiknum. Ekki var því annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn og bíða eftir að þessi ósköp tækju enda. Blessunarlega gerðist það að lokum. Loksins kom fréttatíminn en dágóður tími hans var lagður undir þennan leik.

Í máli og myndum var útskýrt mjög nákvæmlega hversu mikill undirbúningur RÚV hefði verið fyrir beinu útsendinguna og hversu margir hefðu komið að henni. Svo virtist sem áhorfandinn ætti að fyllast djúpri lotningu vegna þeirrar þjónustu sem RÚV af ósérhlífni sinni hefði fært honum. Fyrsta hugsunin var nú samt að þarna hefði verið um óþarfa fyrirhöfn að ræða - sérstaklega miðað við að leikurinn tapaðist, eins og langflestir höfðu reyndar gert ráð fyrir.

Ekki höfðu allir jafn gaman að landsleik milli Íslands og Frakklands og þessir áhorfendur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Dekur sjónvarpsstöðva við íþróttaáhugafólk á sér engin takmörk. Það er ekki nóg með að þessi hópur fái sérfréttir eftir hvern fréttatíma heldur er hefðbundinni dagskrá hvað eftir annað raskað til að þjóna honum. Antí-sportistar hafa horft upp á þetta dekur óralengi án þess að kvarta. Þeir hafa fyrir löngu áttað sig á að sport-ræðið á sjónvarpsstöðvum er staðreynd. Eins konar lögmál sem ekki verður haggað.

Þegar er byrjað að auglýsta í fjölmiðlum næsta boltaleik Íslendinga við erlent lið. Sennilega verður fréttatíminn ekki heldur á réttum stað þann daginn, sem mun vera mánudagur. Þann dag mun gerast það sama og gerðist síðastliðinn föstudag þegar Ísland lék við Frakkland; vinnandi fólk, sem er ært af sportgleði, mun ekki geta einbeint sér að starfi sínu, heldur vera með allan hugann við það hvernig boltaleikurinn muni fara. Þetta fólk mun því lítt iðja þann dag heldur góna dreymið út í loftið og hugsa: „3-0 fyrir Ísland“. Það kemur í hlut hinna sem engan áhuga hafa á leiknum að uppfylla vinnuskylduna – eins og svo oft áður.