„Íslenska tungumálið er í öndvegi í skólunum – ekki bara í dag heldur alla daga.“

Þetta segir Sigríður Ólafsdóttir, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

„Í íslensku skólastarfi fást nemendur við ýmsar námsgreinar, bókmenntir og stærðfræði, þau læra um náttúruna, íslenskt samfélag og lönd heimsins í nútíð og fortíð. Viðfangsefnin eru tekin fyrir í samtölum, glímt er við hliðstæður og andstæður og ný þekking vegin og metin í rituðu máli. Í skólastarfi er jafnframt hlúð að félags- og tilfinningaþroska ungmenna, gagnrýninni og skapandi hugsun. Á þann hátt er lagður grunnur að námsframvindu barna, að þau geti blómstrað í námi og starfi um alla framtíð. Í fjölbreytilegu skólastarfi er íslenska tungumálið alla daga í lykilhlutverki. Íslensk orð eru samofin öllu skólastarfi á öllum sviðum og öllum stigum menntunar.“

Fá orð sífellt endurtekin

Fjölmörg íslensk orð eru hugtök tiltekinna námsgreina, eins og persónugerving, margföldunartafla, lofthjúpur og jarðskorpa, norðurhvel og gróðurbelti.

„Hvert hugtak er tekið fyrir í námi og kennslu þar sem það felur í sér afmarkað inntak viðkomandi faggreinar. Aukinni kunnáttu og hæfni nemenda, eftir því sem náminu vindur fram, fylgir sívaxandi þekking þeirra á íslenskum fagorðum sem tilheyra þeim fræðigreinum sem þau takast á við. Þótt orðin séu ótal mörg þá birtast þau í mismiklum mæli innan viðkomandi fræðasviðs og eru sjaldan eða aldrei notuð í almennu máli, hvorki rituðu né töluðu,“ greinir Sigríður frá.

Hún segir aðeins örlítinn hluta íslenskra orða vera notaðan í daglegu tali.

„Engu að síður fylla þau 90 til 100 prósent orða í töluðu máli og rituðu. Dæmi um orð af því tagi eru hafa, vera, dagur, góður og fólk. Það gildir því um íslenskuna, eins og um önnur tungumál, að fá orð eru sífellt endurtekin en ótal mörg orð koma sjaldan fyrir.“

Á meðal íslenskra orða, sem tilheyra ekki þeim algengustu, eru líka fjölmörg orð sem leika mikilvægt hlutverk á öllum sviðum skólastarfs og þvert á námsgreinar.

„Þessi orð tilheyra námsorðaforðanum því þau styðja við umfjöllun um viðfangsefni námsins á mikilvægan hátt. Orðin sitja í öndvegi þegar fjallað er um flókin málefni og þau ígrunduð og metin frá ýmsum sjónarhornum. Þekking á þessum orðum er því nauðsynleg þegar tekist er á við lestur og ritun fræðilegs texta og orðin eru dæmigerð fyrir ritað mál. Dæmi um orð í þessum hópi eru starfsemi, viðmið, tíðni, hvati, aðgengilegur, viðeigandi, lágmark, viðhorf, uppruni, tileinka, réttlæta, aðlaga, sértækur, sérhæfður, samfelldur, samræmdur, takmörkun og rökstuðningur,“ upplýsir Sigríður.

Námsorðaforði í lykilhlutverki

Síðustu þrjá áratugi hefur verið mikil gróska í rannsóknum á sviði málþroska og læsis.

„Aðalhvati að slíkum rannsóknum er að greina hvað öflugt námsfólk hefur umfram nemendur sem gengur ekki eins vel að fóta sig í náminu. Niðurstöður rannsókna gefa vísbendingar um hvernig best er að veita börnum og ungmennum stuðning svo þau nái að taka virkan þátt í skólastarfi sem leiðir til farsællar námsframvindu,“ útskýrir Sigríður.

Komið hefur í ljós að námsorðaforðinn leikur lykilhlutverk á öllum sviðum námsins og með því að gefa honum mikilvægan sess í skólastarfi, þannig að nemendur nái að tileinka sér orðin bæði til skilnings og tjáningar, verður námsframvindan árangursríkari.

„Verið er að vinna að nokkrum verkefnum með íslenskan námsorðaforða í aðalhlutverki. Sett hefur verið saman ný íslensk málheild, sem samanstendur af fræðilegum samtímatextum og námsefni grunnskólanema. Orðum málheildarinnar er raðað eftir tíðni og orð sem notuð eru þvert á faggreinar skólans valin á lista yfir íslenskan námsorðaforða. Þá verður könnuð þekking grunnskólanema á íslenskum námsorðaforða og hvort þekkingin aukist með hækkandi aldri,“ segir Sigríður um verkefnin sem eru styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og byggja á samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Menntamálastofnunar.

Fyrir komandi kynslóðir

Listi yfir íslenskan námsorðaforða verður gefinn út í rafrænum orðabókum, með skilgreiningum og dæmum um notkun.

„Orðabækurnar verða þýddar á sex tungumál: ensku, filippseysku, pólsku, spænsku, taílensku og úkraínsku. Þá verða þróuð og birt viðmið um það hvað einkennir einfalt íslenskt mál og íslenskt mál með stigvaxandi fjölbreytni, hvað varðar orðaval, málfræði og setningagerð. Textar verða samdir sem byggja á þeim viðmiðum og þeir munu innihalda orð af lista yfir íslenskan námsorðforða og verða textarnir þýddir á sömu sex tungumál. Þessi verkefni eru styrkt af Markáætlun um tungu og tækni og eru unnin í samstarfi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Menntavísindasviðs og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Málheildin, listi yfir íslenskan námsorðaforða, orðabækurnar og textarnir verða birt í opnu aðgengi og gefin út með opnum leyfum svo þau nýtist sem víðast,“ segir Sigríður og bætir við:

„Með aukinni þekkingu á íslenskum námsorðaforða og fjölbreytilegum viðfangsefnum sem honum tengjast er leitast við að gefa öllum börnum tækifæri til að ná góðum námsárangri í íslensku skólastarfi, ein-, tví- og fjöltyngdum. Verkefnunum er einnig ætlað að halda lífi í íslenskum orðum með komandi kynslóðum.“