Bubbi Morthens, einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar, kallar eftir nýjum tónlistarverðlaunum. Það gerir hann í færslu sem birtist á Facebook-síðu hans í kvöld.

„Held það sé komin tími á að stofna ný samtök fyrir veitingu verðlauna til íslenskra tónlistarmanna og kvenna. Íslensku tónlistarverðlaunin eru komin í svo mikið bull að maður gapir.“ skrifar Bubbi og bætir við „ár eftir ár eru vinsælstu lögin hunsuð,“

Hann setur út á að margt vinsælasta tónlistarfólk landsins gangi oft tómhent heim frá hátíðinni og nefnir hann sem dæmi Friðrik Dór Jónsson, sem hann segir eiga met í fjölda vinsælla laga. Þá minnist hann á bróður Friðriks, Jón Jónsson, og tónlistarkonuna GDRN, en saman gáfu þau út lagið Ef ástin er hrein. Bubbi setur spurningarmerki við að það hafi ekki hlotið verðlaun.

„Það hefur fjarað undan hátíðinni gegnum árin og allir tala um það í bransanum,“ skrifar Bubbi sem segist þó ekki vera að taka málinu persónulega, enda hafi hann sjálfur verið tilnefndur.

„Ef vinsælustu lög þjóðarinnar eru ekki tilnefnd ár eftir ár er þá verið refsa þeim fyrir vinsældir sínar.“ skrifar hann í lok færslu sinnar.