Átta flytjendur eru tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir tónlistarmyndband ársins.

Íslensku tónlistarverðlaunin og albumm.is leiða saman hesta sín og líkt og síðustu ár við tilnefningar. Lesendur geta valið myndband ársins og kemur það með til að gilda til móts við val dómnefndar. Það er gert með því að fara inn á albumm.is og gera „like“ við það myndband sem er best að mati lesenda.

Tilnefningar í öðrum flokkum verða tilkynntar á Kornhlöðunni á Bankastræti klukkan 16 í dag. Íslensku tónlistarverðlaunin fara fram 11. mars næskomandi í Silfurbergi í Hörpu.

Hér fyrir neðan eru allar tilnefningar. Lesendum er þó bent á að ekki er hægt að kjósa um besta myndbandið hér heldur á vef albumm.is.

Tónlistarmyndbönd ársins - tilnefningar og umsögn dómnefndar

Bjarki – ANa5 – Leikstjóri: Daníel Heimisson & Baldvin Vernharðsson.

„Frábært og frumlegt myndband. Það er mjög oft sem maður sér íslenska náttúru í myndböndum en það er mjög gaman að sjá hana á nýstárlegan hátt. Hér er farin ný leið og er útkoman þrælskemmtileg. Minnir á margan hátt á 90´s raftónlistarmyndbönd frá gullöld MTV Chillout!“

Doctor Victor feat. SVALA – Running Back – Leikstjóri: Anna Maggý

„Töff myndband með smá áhrifum frá tíunda áratugnum. Flottar hraðar klippingar og nóg um að vera. Lag og myndband talar vel saman sem framkallar heilsteypta mynd.“

Hatari – Hatrið mun sigra – Leikstjóri: Baldvin Vernharðsson & Klemens Hannigan

„Hrátt, kalt og svalt myndband sem smellpassar tónlistinni. Frábær innlifun og auðvitað tröllreið lagið landanum á síðasta ári með þátttöku sinni í söngvakeppninni. Í stuttu máli: Svalt myndband sem fer í sögubækurnar!“

Krummi – Stories To Tell – Leikstjóri: Frosti Jón Runólfsson.

„Þetta myndband hentar Krumma og laginu hans fullkomlega. Krummi er kúreki og þetta er kúreka lag. Myndbandið fangar andrúmsloftið og þegar horft er á það langar manni að kaupa sér hatt og gítar. Virkilega vel gert og flottar pælingar sem ganga upp!“

Of Monsters and Men – Wars – Leikstjóri: WeWereMonkeys.

„Wars er alveg rosalegt myndband! Stórbrotnar teikningar og óheft hugmyndaflæðið. Maður er ávallt spenntur að sjá hvað gerist næst og situr límdur við skjáinn. Frábært!“

Oscar Leone – “Superstar” – Leikstjóri: Einar Egils.

„Einar Egils hefur virkilega gott auga og er snillingur í að finna réttu augnablikin og fanga fallega birtu. Í þessu myndbandi nær hann að sameina þetta tvennt ásamt því að gera Ísland ansi kúrekalegt. Virkilega vel gert myndband!“

Vök – In the Dark – Leikstjóri: Elí.

„Ágúst Elí gerir ávallt eftirminnileg tónlistarmyndbönd. Hér er á ferðinni mjög flott myndband og það er greinilegt að mikil vinna liggur að baki gerð þess. Sagan er skemmtileg og nær að koma á óvart. Áhorfandinn dettur inn í söguna, litina og andrúmsloftið sem myndbandið hefur að geyma.“

Warmland – Blue Place – Leikstjóri: Bernhard Kristinn & Warmland.

„Það er ekki á hverjum degi sem maður sér borðtennis, keilu o.fl stundað úti í náttúrunni. Flott skotið, virkilega flott lýsing og góð hugmynd. Og auðvitað er tónlistin að auki frábær og allt blandast þetta vel saman.“