Fatamerkin The North Face og Gucci hófu samstarf á síðasta ári og kynntu nýlega annan hluta samstarfsins, með auglýsingaherferð sem var tekin upp hér á landi.

Fyrir um ári hófu vörumerkin Gucci og The North Face nýstárlegt samstarf. Þetta var ekki fyrsta samstarf The North Face með hátískumerki en þetta var í fyrsta sinn sem Gucci framleiddi útivistarfatnað. Nú heldur samstarfið áfram og rétt fyrir jól hófst auglýsingaherferð fyrir nýja línu sem fyrirtækin kalla kafla tvö, en herferðin var mynduð af frönsku tvíburunum Jalan og Jibril Durimel hér á landi og hönnuð af Alessandro Michele, hönnunarstjóra Gucci.

Íslenskt landslag leikur stórt hlutverk í ­herferðinni.

Nýja línan inniheldur útivistarfatnað, skó, töskur og aukahluti fyrir bæði karla og konur, þar sem stílar merkjanna tveggja mætast. Þar er meðal annars að finna flíkur sem byggja á hönnun frá bæði áttunda og tíunda áratug síðustu aldar en hafa verið uppfærðar með nýtískulegum efnum og nútímalegum framleiðsluaðferðum.

Fötin fást bæði í hlutlausum og sterkum litum og til að styðja við sjálfbærni var Econyl aðalefnið sem var notað í þessi föt, en það er nælonefni sem er búið til úr plöntutefjum.

Margar af vörunum eru mjög litríkar.

Í herferðinni sjást fyrirsæturnar í íslenskri náttúru, umkringdar svörtum sandi, grænum hæðum og jöklum. Gucci segir að herferðin sýni „óhrædda landkönnuði í einstöku og undurfögru landslagi Íslands, sem hafi yfirnáttúrulegan anda“ og að hún „fagni anda könnunar í öllum sínum myndum og byggi á gildum sjálfskönnunar og tjáningar, sem einkenni bæði vörumerkin“.

Gucci hafði aldrei framleitt útivistarfatnað áður en samstarfið við The North Face hófst.
Herferðin var mynduð af frönsku tvíburunum Jalan og Jibril Durimel. MYNDIR/GUCCI