Net­flix mun fram­leiða nýja vísinda­skáld­sögu­þátta­röð Baltasars Kormáks sem mun bera heitið Katla. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Net­flix en pantaðir hafa verið átta þættir og hefst fram­leiðslan á næsta ári. Verður ís­lenskt lands­lag fyrir­ferðar­mikið í þáttunum.

Sögu­þráður þáttanna fjallar um líf bæjar­búa í hinum frið­sæla smá­bæ sem kallast Vík og gerist þátta­röðin einu ári eftir Kötlu­gos. Í­búar neyðast til að yfir­gefa bæinn þegar jökullinn ná­lægt eld­fjallinu byrjar að bráðna. Þeir ör­fáu í­búar sem eftir eru halda sam­fé­laginu gangandi og er bærinn orðinn að drauga­bæ. Brátt fara dular­fullir hlutir sem frusu djúpt inn í jökulinn fyrir löngu síðan að koma í ljós með ó­fyrir­sjáan­legum af­leiðingum.

Þættirnir eru úr smiðju Baltasars og hand­rits­höfundsins Sigur­jóns Kjartans­sonar. Sigur­jón skrifar hand­ritið á­samt þeim Lilju Sigurðar­dóttur og Davíð Má Stefáns­syni en fram­leiðslan verður í höndum RVK Stu­dios.

Tesha Craw­ford, fram­kvæmda­stjóri þátta­fram­leiðslu Net­flix í Norður-Evrópu, segir í til­kynningunni að for­svars­menn streymis­veitunnar séu spennt fyrir því að sýna stór­brotið ís­lenskt lands­lag í ís­lenskri sögu. „Að fá líka tæki­færi til að vinna með þeim mikla lista­manni sem Baltasar er gerir þetta verk­efni full­komið fyrir okkur. Við bíðum spennt eftir því að sjá og heyra söguna á skjánum og geta svo sýnt á­skrif­endum okkar um allan heim.“

Ekki hefur verið á­kveðinn frum­sýningar­dagur, hann verður til­kynntur síðar, en þátta­röðin verður sýnd á streymis­veitunni um allan heim.