Á síðari hluta síðustu aldar voru ríkisstarfsmenn að Stuðlahálsi í svokölluðum þroskunaræfingum með brennivín og voru meðal annars að framleiða útgáfu sem hét einfaldlega Gamalt Brennivín og hafði legið á eikartunnum í 12 mánuði.

Þessar æfingar voru svo endurvaktar undir aldamót með ágætis árangri, þá á frönskum eikartunnum.

„Við höfum verið í þessum tunnuþroskunarfasa með hið íslenska Brennivín síðan 2014 samfleytt þegar fyrsta tunnuþroskaða Brennivínið kom út sama ár eftir að hafa þroskast á tunnum í sex mánuði. Það hét Brennivín Jólin 2014 sem er það nafn sem við notum enn í dag nema bara með nýju ártali, auðvitað.

Það er óhætt að segja að það hafi strax slegið í gegn og vakti það umtalsverða athygli bæði hér heima en einnig á mörkuðum erlendis,“ segir Úlfar Árdal, framleiðslustjóri Brennivíns.

Úlfar segir að jólaútgáfan af brennivíni þetta árið hafi fengið að þroskast í sérrítunnum í 18 mánuði, sem séu sérvaldar þannig að eiginleikar hverrar tunnu fyrir sig fái að njóta sín.

„Eftir þroskunina má greina milda tóna sérrís og vanillu sem tunnurnar færa okkur og blandast við létta kúmentónana ásamt því að gefa Brennivíninu þennan fallega gyllta blæ.“

Útflutningur á íslensku Brennivíni hefur verið í gangi í þó nokkur ár til markaða á borð við Bandaríkin, Kanada og Þýskaland. Þar er það álitið lúxusvara en aðeins voru 43 flöskur til í Vínbúðum ÁTVR í gær.

„Okkar stærsti markaður er í Ameríku og stuttu eftir að faraldurinn fór á flug fórum við að fá fréttir af lokunum hjá mörgum af flottustu börum í helstu fylkjum og eigendur hreinlega vissu oft ekki hvort þeir myndu nokkurn tímann opna aftur.

Okkar helsta sala hefur einmitt verið á fínni börum og veitingastöðum þannig að þetta leit ekki vel út. Þegar leið á fór salan að færast yfir í fínni flöskubúðir að einhverju leyti auk þess sem netsala tók mikinn kipp. Þá hefur sala aukist í Þýskalandi undanfarin tvö ár,“ segir Úlfar svolítið stoltur.

Hann segir að það sé stórkostlega skemmtilegt að leika sér með jafn fornfrægt merki og íslenska Brennivínið. Nú sé komin vörulína fyrir lengra komna enda verður næsta útgáfa sú fyrsta í svokallaðri „single barrel“-seríu sem hann er spenntur fyrir. „Þar blöndum við ekki saman tunnum eins og við gerum núna heldur veljum áhugaverðar tunnur úr tilraunaverkefnum okkar og leyfum þeim að njóta sín einum og sér.“

Bragðlýsingin samkvæmt síðu ÁTVR er að Brennivínið sé ljósrafgullið, ósætt, kúmen, hnetur, þurrkaðir ávextir, vanilla og tunna. Heitt eftirbragð. Engu logið þar.
Mynd/Fréttablaðið