Ein vinsælasta sjónvarpsþáttasería heims um þessar mundir er The Queen´s Gambit á streymisveitunni Netflix. Þættirnir byggja á samnefndri skáldsögu eftir Walter Tevis frá árinu 1983 og vísar heitið í vinsæla skákbyrjun sem á okkar ylhýra móðurmáli myndi útleggjast sem Drottningarbragð.

Það er vel við hæfi enda fjallar skáldsagan, og þar af leiðandi þættirnir, um undrabarnið Elizabeth Harmon og leið hennar til æðstu metorða í grimmum heimi skáklistarinnar. Sú leið er þyrnum stráð, ekki síst vegna ýmissa áskorana í einkalífi söguhetjunnar sem í ofanálag er kona í umhverfi þar sem karlar hafa, því miður, alfarið ráðið ríkjum.

Skákþekking óþörf

Það er ekki að ástæðulausu að þættirnir hafa slegið í gegn. Þar ræður sennilega mestu að áhorfendur þurfa ekki að hafa neina þekkingu á skák til þess að njóta þeirra í botn.Þá er öll framleiðsla þáttanna, búningar og leikmynd, algjörlega framúrskarandi og ég treysti mér til að fullyrða að hvergi er slegið feilspor í vali leikara. Sérstaklega aðalleikkona þáttanna, Anya-Taylor Joy, sem er hreint út sagt stórkostleg í sínu hlutverki sem Beth Harmon og ekki síður Isla Johnston, sem fer með hlutverk söguhetjunnar á barnsaldri.

Ef að þær verða ekki verðlaunaðar fyrir leik sinn á einhverjum vettvangi mun ég tefla drottningarbragð einvörðungu næstu tvö ár, sem er talsverð fórn því byrjunin er að mínu mati hundleiðinleg.

Isla_Johnston.PNG

Hin unga Isla Johnston slær í gegn

Eitruð kvikmyndapeð

Sá er hér heldur á penna, eða öllu heldur hamrar á lyklaborðið, hefur lifað og hrærst í skák frá barnsaldri. Ég vissi af skáldsögu Tevis en hafði ekki lesið hana og satt best að segja var ég nokkuð kvíðinn fyrir áhorfinu. Ég tek því nefnilega nánast persónulega ef að skáklistinni er misþyrmt af kvikmyndagerðarfólki!

Sá kvíði reyndist blessunarlega óþarfur. Allt sem snýr að skáklistinni, og ekki síst andrúmsloftinu á skákmótum, var frábærlega gert. Framleiðendur fengu tvo ráðgjafa til liðs við sig, annars vegar bandaríska skákkennarann Bruce Pandolfini og hins vegar fyrrverandi heimsmeistarann Gary Kasparov – einn besta skákmann sögunnar.

Sennilega var ekki hægt að finna betri ráðgjafa en Kasparov. Hann var sjálfur undrabarn í skáklistinni og þekkir því vel þá athygli og álag sem sú snilligáfa laðar að sér. Þá er sennilega enginn jafn vel að sér í skáksögunni og hann enda byggjast flestar skákirnar í þáttunum á perlum skáksögunnar. Þar á meðal er sigurskák goðsagnarinnar Friðriks Ólafssonar gegn heimsmeistaranum Mikhail Tal sem sést örstutt í sjötta þætti þar sem Beth Harmon teflir hraðskáksfjöltefli við þrjá félaga sína.

f12140911 skak 39.jpg

Ein af perlum Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslands í skák, bregður fyrir í þáttunum

Hér má renna yfir sigurskák Friðriks gegn töframanninum frá Ríga, fyrrum heimsmeistaranum Mikhail Tal.

Örfáir afleikir

Þó eru nokkur smátriði sem að koma þeim allra hörðustu einkennilega fyrir sjónir. Til dæmis hversu hratt keppendur tefla þrátt fyrir nógan umhugsunartíma. Þá gerði það mig næstum því brjálaðan þegar einn andstæðingurinn bauð aðalsöguhetjunni jafntefli í gjörtapaðri stöðu. Slíkt væri gríðarlega ósvífið og þekkist því í raun ekki. Einnig gefast skákmenn upp með því að rétta út höndina (að minnsta kosti áður en kórónaveiru­faraldurinn kom fram á sjónarsviðið) en aldrei nokkurn tímann með því að láta kónginn falla eins og gert er í þáttunum. Ég kýs þó að fyrirgefa þessi smáatriði enda tilgangurinn að búa til gott sjónvarp með vænni slettu af dramatík.

Þá þótti mér einnig vænt um að skákmennirnir í þættinum voru ekki eingöngu einhverjir furðufuglar. Það er lífseig klisja að skákmenn séu upp til hópa stórskrýtnir, sem er eingöngu að hluta til rétt! Eftir þriggja áratuga reynslu sem skákmaður myndi ég skjóta á að sjö prósent skákmanna væru á einhverju rófi, 15 prósent félagslega bældir einfarar og kannski í mesta lagi fjögur prósent tjörugeðveikir. Það þýðir að 74 prósent skákmanna eru fullkomlega eðlilegt fólk og því er komið til skila í þáttunum.Að lokum þótti mér einna vænst um hvernig þáttunum tókst að búa til andrúmsloft á skákmótunum og við skákborðið sem ég þekki persónulega vel.

Að labba inn í framandi skáksal og skrá sig til leiks í skákmóti. Setjast á móti ókunnugum andstæðingi og hefja glímu í huganum. Augnagoturnar og hvernig andstæðingurinn er oft og tíðum ofan í þínu persónulega rými á meðan bardaganum stendur. Gleðin sem heltekur mann þegar í ljós kemur að maður hefur séð lengra en andstæðingurinn en ekki síður angistin þegar maður leikur af sér og þarf að horfast í augu við eigin takmarkanir.