Íslenskir aðdáendur Eurovision tala varla um annað en framlag Hatara, Hatrið mun sigra, ef marka má umræður inni á Facebook hópi júrónörda, Júróvisjón 2019 en hópurinn inniheldur „samansafn af Eurovision aðdáendum að úbernördast“ og má segja að heilt yfir ríki nokkur bjartsýni fyrir velgengni Hatara, þó einhverjir séu aðeins vantrúaðri.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá vakti Jóhannes Þór Skúlason, sérlegur áhugamaður um Eurovision á því athygli í gær að framlag Hatara hefði nær eingöngu fengið jákvæð viðbrögð á Youtube myndbandssíðunni, „sem alla jafna er ein dýpsta ruslakista internetsins“ og þá segir Rob Holley, blaðamaður Independent, að hann telji lagið líklegt til afreka komist það á stóra sviðið í maí.

Ljóst er að íslenskir júrónördar hafa ekki farið varhluta af athyglinni erlendis frá en miklar umræður hafa skapast um framlag Hatara, jafnvel þó að ein undankeppni í Söngvakeppninni sé eftir og úrslit Söngvakeppninnar fari ekki fram fyrr en 2. mars.

Segir Hatara minna sig á Lordi

„Eruð þið að sjá kommentin hérna fyrir neðan myndbandið? Hvað er að gerast?“ spyr Friðrik Agni Árnason í hópnum og vísar þar í Youtube myndband af framkomu Hatara síðastliðinn laugardag. 

Ljóst er að íslenskir júrónördar hafa ekki farið varhluta af athyglinni sem Hatrið mun sigra hefur fengið erlendis frá en miklar umræður hafa skapast um framlag Hatara í hópnum og fjalla flestar færslur um framlagið, jafnvel þó að ein undankeppni í Söngvakeppninni sé eftir og úrslit Söngvakeppninnar ekki fyrr en 2. mars.

Sjá einnig: Deila um Hatari og þátttöku Íslands

Þannig bendir Gunnar Ásgeirsson á það að það séu tuttugu ár síðan að Ísland lenti í öðru sæti í keppninni með lagi Selmu Björnsdóttur, All out of luck og tíu ár síðan að Jóhanna Guðrún lenti í öðru sæti með lagið Is it True. Hann segist hafa sömu tilfinningu fyrir sveitinni og skrímslasveitinni Lordi sem sigraði keppnina fyrir Finnlands hönd árið 2006. 

„Ég hef sömu tilfinningu fyrir Hatara og ég hafði fyrir Lordi og fari það svo að við sendum Hatar út í ár þá held ég að árið 2019 gæti orðið árið sem Ísland sigraði Eurovision í fyrsta skipti.“

Dótturdótturin fór að hágráta

Ljóst er að ekki eru allir á sama máli um ágæti framlags Hatara í hópnum en aðrir eru komnir með hugann alla leið að einvíginu þann 2. mars næstkomandi. 

„Ég á átta ára gamla dótturdóttur sem fór að hágráta þegar tilkynnt var að Hatari kæmist áfram, hún skildi þetta ekki og sagði við mömmu sína, hvernig geta svona vondir kallar verið valdir og þeir voru ekki einu sinni glaðir. Ég skil hana mjög vel, þetta er ekki fallegur boðskapur,“ segir Ágústa Hrund Emilsdóttir. 

Hallgrímur Óskarsson hefur litla trú á gengi lagsins komist það alla leið í Eurovision. „Þetta lag á engan séns að ná árangri í stóru keppninni en Íslendingar munu kannski láta plata sig að senda þetta út,“ segir Hallgrímur en það er ljóst að slíkar skoðanir valda aðdáendum Hatara nokkrum áhyggjum af gengi lagsins í úrslitunum þann 2. mars.

Óttast að Hatari fari sömu leið og Frikki Dór

„Ég er svolítið hrædd um að Hatari muni tapa einvíginu og við munum senda út sama rusl (sorry) og við höfum gert mjög oft,“ segir Rósana Ragimova Davudsdottir og fjölmargir taka undir með henni en líkt og síðustu ár munu efstu tvö lögin keppast aftur við í annarri atkvæðagreiðslu.

„Jáá það er líklegra heldur en að þeir fari út því miður. Allir sem eru á móti laginu munu kjósa Heru/Friðrik Ómar BARA til að Hatari fái ekki séns,“ segir Heiðrún Arna.

„Mér er minnisstætt þegar Friðrik Dór laut í lægra haldi í einvígi. Það var ekki af því að fólk héldi svona mikið upp á lagið sem vann heldur af því að það voru svo margir með eitthvað prinsipp að kjósa gegn FD - sem var með langtum betra lag,“ segir Hildur Edda Einarsdóttir og vísar í Söngvakeppnina árið 2015.

Hér að neðan má sjá dragdrottninguna Maxxy Rainbow hlusta á öll lögin sem keppa í Söngvakeppninni þetta árið og segja sína skoðun á þeim.