„Ég hafði aldrei átt myndavél áður,“ segir ítalski listamaðurinn Claudio Pedica, sem keypti sína fyrstu vél síðasta vetur. Hann er nýlega fluttur til Þýskalands, eftir að hafa búið á Íslandi með hléum frá árinu 2007.

Hann er menntaður tölvuleikjahönnuður og hefur starfað sem slíkur hér á landi um árabil.

„Þetta hófst allt með heimsfaraldrinum, þegar ég hafði meiri tíma að spila úr og mig langaði að líta á þetta krefjandi tímabil, sem tækifæri til að líta inn á við og gera eitthvað skapandi,“ segir hann.

Fálki kveikti áhugann

Claudio segist furða sig á því að hann hafi ekki byrjað að ljósmynda fyrr en síðasta vetur. „Í raun og veru, eftir að hafa verið búsettur á Íslandi í svona mörg ár, þá er skrýtið að ég hafi ekki byrjað í ljósmyndun fyrr.“

Hann segir Ísland vera fullkomið ljósmyndaland.

„Það er sama hvert þú beinir myndavélinni, alls staðar eru tækifæri til að ná góðu skoti. Ég ákvað að kaupa myndavél þegar ég sá villtan fálka að Hólum í Hjaltadal. Þá tók ég ákvörðun um að einn daginn myndi ég ná ljósmyndum af fálka.“

Claudio segist þakklátur hröfnunum sem birtust honum í íslenska vetrinum.
Mynd/Aðsend

Hann segir markmiðið að lokum hafa náðst með góðri aðstoð. „Mér tókst þetta á endanum, eða öllu heldur, dýrin leyfðu mér það. Eftir heilan vetur af æfingum, þar sem ég var satt að segja farinn að missa vonina, í ljósi þess að fálkar eru svo sjaldgæf sjón, þá komst ég að fálkahreiðri.“

Hann segist hafa heimsótt hreiðrið með leyfi frá Umhverfisstofnun, en fálkinn er friðaður og að stofninum steðja ýmsar hættur, meðal annars mengun og ólögleg veiði.

Claudio segir mjög erfitt að mynda villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi.
Mynd/Claudio Pedica

„Umhverfisstofnun veitti mér leyfið og ég fékk líka aðstoð og fræðslu frá Náttúrufræðistofnun Íslands.“

Í þjálfun hjá hröfnum

Claudio segist hafa æft sig á ljósmyndun hrafna. „Ég lít þannig á málið að ég hafi farið í gegnum þjálfun með hröfnum þarna í upphafi. Að ljósmynda villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi er mjög erfitt og krefst verulegrar hæfni og viðeigandi búnaðar. Að reyna að ljósmynda hrafnana í upphafi, gaf mér tækifæri til að þroska ljósmyndahæfileikana og læra inn á hegðun dýranna,“ segir hann.

Hann segir að allt þetta hafi nýst honum sem undirbúningur fyrir daginn sem hann hitti fálkana fyrir hjá hreiðrinu. „Þótt þú sjáir fuglana, þá þýðir það ekki að þú getir skilað af þér góðri mynd.

Hesturinn á heiðinni sem birtist á forsíðu Olympia passion magazine í október í fyrra.
Mynd/Claudio Pedica

Ég er þakklátur hröfnunum og hinum dýrunum sem birtust mér í íslenska vetrinum, fyrir tækifærið til að bæta mig sem ljósmyndari.“ Hann segist að auki vera umkringdur hæfileikaríkum vinum sem hann hafi lært mikið af.

Þráði líf á norðurhjara

Claudio fluttist fyrst til Íslands fyrir fimmtán árum síðan. „Mig langaði aldrei að vera túristi, þannig að ég ákvað að flytja fyrst til Íslands sem skiptinemi. Þetta var í fyrsta sinn sem ég bjó í öðru landi. Mig langaði að upplifa á eigin skinni hvernig var að búa við ysta hjara norðursins.“

Stutt myndbönd af fálkunum ásamt fleiri ljósmyndum má finna á Instagram undir @claudiopedica.

Eftir langa hríð tókst Claudio loksins, með góðri aðstoð, að ná myndum af íslenskum fálkum.
Mynd/Claudio Pedica