Fyrir tíð áhrifavalda á samfélagsmiðlum höfðu þjóðþekktir einstaklingar áhrif á landsmenn á annan hátt en nú, og líklega mun ómeðvitaðra en nú, þar sem það var ekki titlað sem starfsgrein á árum áður.

Fréttablaðið tekur hér saman lista yfir nokkra vel valda áhrifavalda fyrir tíma samfélagsmiðla sem voru áberandi í þjóðfélagsumræðunni, hver á sinn hátt. Athygli er vakin á því að listinn er langt því frá tæmandi og aðeins til gamans gerður.

Fyrstur og fremstur er fjölmiðlamaðurinn er Bogi Ágústsson. Hann hefur án efa hefur ýtt undir fágun í fatavali með klassískum blazer-jökkum þegar hann hefur lesið kvöldfréttir fyrir landsmenn í gegnum tíðina.

Mynd/Hannes

Íþróttaálfurinn og heilsugúrúinn Magnús Scheving náði á snilldarlegan hátt að fá börn landsins til að fá sér svokallað íþróttanammi sem eru ávextir og grænmeti. Þá hefur hann ýtt undir almenna lýðheilsu.

Jónína Benediktsdóttir heitin var frumkvöðull í heilsurækt hér á landi og eiga margir henni betri heilsu að þakka.

Á hápunkti tónlistarferils hljómsveitarinnar Írafárs vildu margar ungar stelpur vera eins og Birgitta Haukdal í klæðaburði, hártísku og danstöktum svo eitthvað sé nefnt.

Egill Einarsson, betur þekktur sem Gillz, gaf út bók og var mjög áberandi á síðum blaðanna og í sjónvarpi áður en Facebook og Instagram yfirtóku markaðinn.

Það sama má segja um tónlistarhópinn Nylon.

Hildur Líf Higgins varð þekkt fyrir að skipuleggja hið alræmda VIP-partí á Goldfinger hér um árið.

Útvarpsmaðurinn Ríkharður Óskar Guðnason, eða Rikki G., gerði garðinn frægan með stífgelaða hárgreiðslu sem ungir menn tóku upp eftir honum.

Rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson hefur frætt landsmenn um reykingar og mikilvægi þess að hætta að reykja.

Fréttablaðið/Anton Brink

Tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson var með skarð í framtönn á yngri árum, sem leiddi til þess að aðdáendur hans reyndu alls kyns brögð til að líkjast honum.

Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Ragga Gísla hefur alla tíð verið fyrirmynd kvenna. Töff klæðaburður og fallegt svart hárið.

Karlalandsliðið í handbolta sem vann til silfurverðlauna árið 2008 á Ólympíuleikunum hafa verið miklar fyrirmyndir fyrir yngra íþróttafólk.

Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson