Einar Már Guðmundsson hefur sent frá sér nýja bók, Skáldleg afbrotafræði heitir hún og fjallar um samfélag og tíðaranda í byrjun 19. aldar.

„Þetta er saga sem gerist á Íslandi við upphaf 19. aldar þegar ýmsar breytingar eru í gangi, þar á meðal umbætur í réttarfari. En þessi tími hefur líka verið kallaður afbrotaöldin og þá er átt við árin frá 1800–1830 þegar síðasta aftakan fer fram. Þarna eru rán, þjófnaðir, morð og brennur, aðallega á tveimur stöðum í landinu, í Árnessýslu og Húnavatnssýslu. Í sögum og munnmælum voru afbrotamenn þessa tíma dæmdir hart, dómararnir notuðu ljót orð og lengi loddi við Húnvetninga að þeir væru þjófar og glæpamenn,“ segir Einar Már og bætir við:

„En glæpamenn þessa tíma eru talsvert mótsagnakenndir að því leyti að við aðrar kringumstæður hefðu þeir margir orðið menntamenn og umbótamenn.

Löngun í breytingar lá í loftinu en þær gátu ekki orðið vegna aðstæðna í samfélaginu. Því braust óróinn út í afbrotum frekar en meðvitaðri baráttu. Hún var ekki til staðar á þeim tíma. Yfirvaldið í útlöndum og engin þróuð hugmyndafræði. Afbrotamenn þessa tíma eru stundum kallaðir frumstæðir uppreisnarmenn. Þarna er sem sé ansi margt á seyði og að mínu mati hefur þessum tíma ekki verið gefinn sá gaumur sem honum ber. Hann er oft stimplaður sem eymdartími en er það alls ekki. Það er alltaf eitthvað í gangi og tíminn leynir á sér.“

Engar andstæður

Bókin gerist í þorpinu Tangavík sem hefur áður komið við sögu í bókum Einars Más eins og Íslenskum kóngum og Hundadögum. Spurður um skilin á milli raunverulegra atburða og skáldskapar í bókinni segir Einar Már:

„Ég nota mér talsvert mikið af því sem gerðist í raunveruleikanum. Skáldskapur og raunveruleiki eru engar andstæður. Ég er ekki að reyna að skrifa aðra sögu en þá sem gerðist. Ég er hins vegar að beita skáldskapnum til að skilja hvað gerðist og hvernig fólkinu leið. Sagnfræðin er kannski sá pottur sem maður eys sögunni upp úr en skáldskapurinn gefur manni frelsi til að lýsa hana upp að innan og leyfa henni að tala við okkar tíma. Við lifum sjálf á tímum þar sem fólk segir nei og mótmælir en veit samt ekki hvað það vill. Við eigum ekki bara að sjá flísarnar í augum fortíðarinnar heldur spegla okkur í þeim.

Sagnfræði og skáldskapur voru eitt sinn sama fyrirbærið eða menn voru bara að segja sögu sem þeir héldu að væri sannleikur en reyndist vera skáldskapur. Mörkin eru því aldrei dregin í sandinn og skáldaðar persónur geta verið innan um raunverulegar persónur, og líka draugar.

Þegar ég fór að skoða hina stóru atburði þessa tíma þá fékk ég auðvitað líka áhuga á sögum sem voru á sínum tíma afgreiddar eins og hverjar aðrar neðanmálsgreinar og jafnvel ekki sagðar. Það þótti svo sjálfsagt að fara illa með almúgafólk og undirmálsfólk að það þykir ekki í frásögur færandi. Fulltrúi þessa hóps er til dæmis munaðarlausa stúlkan Jóna í sögunni minni. Hún verður á vissan hátt sál hennar, og mjög gott dæmi um hvernig uppreisnin litar allt lífið á staðnum, í Tangavík, sem byggir á ákveðnu þorpi eða þorpum, en er um leið sinn eigin heimur.“

Sögur eru aldrei búnar

Spurður hvort þessi nýja skáldsaga sé fyrsti hluti af stærra verki segir Einar Már: „Þessi saga er saga af fólki, saga af stað og saga af tímabili. Ég er mjög mikið að teikna tímabilið, segja sögu og sögur sem fléttast saman, og sumum þeirra lýkur í þessari sögu en aðrar eiga sér augljóst framhald. Sögur eru aldrei búnar þótt þeim ljúki.“