Hou­se of the Dragon, nýjasta sjón­varps­þátta­röðin úr smiðju HBO og svo­kallað for­fram­hald af Game of Thrones þáttunum, verður hvergi sýnd á Ís­landi.

Stöð 2 sýndi Game of Thrones á sínum tíma þegar þættirnir voru meðal vin­sælustu þátta veraldar. Stöðinni bauðst ekki að taka nýju seríuna til sýninga þar sem HBO fram­leiðir hana ein­göngu fyrir eigin streymis­veitu, HBO Max.

„Við munum ekki sýna hana. Þetta er efni sem HBO Max er að fram­leiða fyrir sína veitu og heldur þessu því alveg að sér eins og Net­flix myndi gera,“ segir Þóra Clausen, dag­skrár­stjóri Stöðvar 2.

Nýju þættirnir gerast hundruðum ára á undan Game of Thrones og er borgara­styrj­öld Targar­yen-fjöl­skyldunnar í brenni­depli í þátta­röðinni sem byggir á bókum Geor­ge R.R. Martin.

Stöð 2 var heimili HBO hér á landi um ára­bil en breyting varð þar á árið 2019 með til­komu HBO Max. Opna átti streymis­veituna á Ís­landi í ár en breyting hefur orðið þar á eins og kemur fram í svörum Warner­Media við spurningum Frétta­blaðsins á síðu 4 í dag og í frétt á vefnum.

Þóra segir að­spurð leitt að Game of Thrones nördar séu svo gott sem munaðar­lausir á Ís­landi. „Svona er heimurinn að þróast eins og er. Streymis­veiturnar eru að halda efni hjá sér og ekki að selja efni til „lókal“ stöðvanna. Hve­nær þeir koma svo til Ís­lands er síðan stóra spurningin,“ segir Þóra.

Hún segir að­spurð engan skell fyrir Stöð 2 að fá ekki að sýna HBO-þættina. „Alls ekki. Við stöndum ekki og föllum með þessu, heldur erum mest að ein­beita okkur að okkar eigin inn­lendu fram­leiðslu, eins og Idol,“ segir Þóra keik.

„En auð­vitað er það fast í minnum manna að við vorum heimili HBO hér­lendis, en svo eru þeir bara að fara af stað sjálfir.“