Ball er nýtt dansverk eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Roberts, sem unnið er í samstarfi við Íslenska dansflokkinn. Að sýningunni koma níu gestadansarar sem spanna breiðan aldurshóp. Sá yngsti er 12 ára og sá elsti á áttræðisaldri.

Að sögn Ásrúnar eru hér saman komnir dansarar úr ýmsum áttum, þar sem koma saman margir stílar, þar á meðal Bollywood-, freestyle-, samkvæmis-, street- og breakdans, svo að fátt eitt sé nefnt.

„Þetta er mikið af dönsurum og dans-stílum,“ segir Ásrún. Aðspurð segir hún ekki neitt narratíf fylgja sýningunni, en hver dansari komi að borðinu með einn dans. „Við köllum þetta ball af því að alls konar dansar geta gerst á böllum, og alls konar getur gerst á böllum. Áhorfendur sitja síðan og horfa á þetta ball gerast fyrir framan sig,“ segir hún.

Það verður fjölbreytni á nýja sviði Borgarleikhússins í maí.
Mynd/Hörður Sveinsson

Ásrún segir ótrúlega gaman að stýra jafn stóru verki. „Ferlið er búið að vera æðislegt og það hefur verið magnað að sjá allt þetta fólk. Allir eru að vinna saman í fyrsta skipti og það er æðislegt að sjá virðinguna og traustið,“ segir hún. „Þau eru að læra dansana hjá hverju öðru og dansa þá saman.“

Í sýningunni gefst dönsurum tækifæri til að prófa sig áfram með dans-stíla sem þeir hafa ef til vill ekki dansað áður. „Þarna er til dæmis ballettdansari sem hefur ekki dansað Bollywood-dansa áður. Eða breik-dansari sem hefur ekki verið í ballett. En það eru allir til í að prófa og það er magnað að sjá hvað líkami dansarans er magnaður og hvað hann getur margt,“ segir hún.

„Nú er viðeigandi eftir samkomutakmarkanir og dans-bönn, að koma saman og dansa. Meiningin verður þannig dýpri.“

Verkið er frumsýnt föstudaginn 6. maí á nýja sviði Borgarleikhússins og sýningar standa út mánuðinn.