Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Ber­li­n­­ale, ein sú stærsta sinnar tegundar, fagnar 72 ára afmæli sínu nú í febrúar. Tvær íslenskar myndir frá íslenska kvikmyndaframleiðandanum Join Motion Pictures (JMP) verða frumsýndar á hátíðinni – Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson og stuttmyndin Hreiður eftir Hlyn Pálmason.

„Það er mikill heiður og gæðastimpill sem felst í því að fá mynd sína valda inn á þessa hátíð,“ segir Anton Máni Svansson, framleiðandi myndanna tveggja. „Við hjá JMP erum því himinlifandi ánægð með að vera að heimsfrumsýna þarna tvær af okkar myndum í ár, eina leikna kvikmynd í fullri lengd og eina leikna stuttmynd.“

Aðeins ein önnur leikin kvikmynd frá Norðurlöndunum var valin inn þetta árið og er það Netflix kvikmyndin Against the Ice eftir Peter Flinth, sem Baltasar Kormákur og RVK Studios framleiddu.

Skyggnigáfa og trjákofi

Berdreymi segir frá Adda, unglingsstrák í Reykjavík, sem alinn er upp af móður með skyggnigáfu. Einn daginn ákveður Addi að taka eineltisfórnarlamb undir sinn verndarvæng og inn í vinahóp slagsmálahunda. Án eftirlits leika strákarnir sér að valdbeitingu og ofbeldi, en kynnast einnig djúpri vináttu. Þegar hegðun strákanna stigmagnast yfir í lífshættulega atburði, fer Addi að upplifa eigin skynjanir. Guðmundur Arnar leikstýrði síðast myndinni Hjartasteini, sem kom út árið 2017 og hlaut fjölda viðurkenninga á heimsvísu.

„Í framhaldinu hlökkum við mikið til að frumsýna myndina á Íslandi, þar sem við teljum að hún eigi eftir að koma Íslendingum skemmtilega á óvart og vekja mikið umtal,“ segir Anton Máni. „Þarna er á ferðinni grípandi og kraftmikil mynd sem ég tel að eigi eftir að vekja upp margar sterkar tilfinningar hjá áhorfendum, ljúfar og fallegar, jafnt sem ógnvekjandi.“

Stuttmyndin Hreiður er saga systkina sem byggja saman trjákofa. Áhorfendur fylgjast með lífi þeirra og ferli í heilt ár, í gegnum hamingju og þjáningu, vetur og sumar, ljós og myrkur. Hlynur Pálmason, leikstjóri myndarinnar, gaf síðast frá sér Hvítan, hvítan dag, sem kom út árið 2019 og vann einnig til fjölda verðlauna.

„Hreiður var tekin upp yfir rúmt heilt ár á 35 mm filmu, frá 2020 til 2021 á Höfn í Hornafirði,“ segir Anton Máni, sem lýsir myndinni sem fallegri og látlausri en með sterku sjónarspili og kröftugum hljóðheimi.

Tímabundnar hindranir

JMP vinna þessa dagana að annarri leikinni kvikmynd í fullri lengd, ásamt heimildarmynd um tónskáldið Jóhann Jóhannsson. Aðspurður segir Anton Máni að kvikmyndaframleiðsla hafi tekist merkilega vel í faraldrinum.

„Auðvitað koma hraðahindranir reglulega, og ferlið á það til að taka lengri tíma en vonast var til, en almennt séð verðum við að teljast mjög lukkuleg fyrir að geta yfirhöfuð haldið áfram að gera það sem við elskum, að skapa og búa til bíómyndir,“ segir hann. „Nú vonum við svo auðvitað bara innilega að ástandið geri ekkert annað en að batna og að sem flestir nái að sjá kvikmyndir okkar á bíótjaldinu, þar sem þær njóta sín best.“