Tíkin Panda skrifaði sig inn í kvikmyndasögu Íslands þegar hún hlaut sérstök verðlaun, Grand Jury Prize, á Palm Dog kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir skemmstu. Panda, sem dó í mars síðastliðnum, fékk verðlaunin fyrir frammistöðu sína í myndinni Lamb (Dýrið) en það var ekki eina kvikmyndin sem hún kom nálægt á sinni ævi.

„Það er gaman að fá þessi verðlaun til minningar um hana,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir, eigandi Pöndu. „Við erum mjög spennt að sjá myndina.“

Elísabet Gunnarsdóttir hundaræktandi
Fréttablaðið/Aðsent

Elísabet og Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson, maður hennar, reka vinnuhundaræktun á Ketilsstöðum á Tjörnesi, smalahundar.is. Panda var líkt og aðrir hundar þeirra af bresku tegundinni Border Collie.

Faðir Elísabetar, Gunnar Einarsson á Daðastöðum, var frumkvöðull með Border Collie vinnuhunda og fékk hún sína fyrstu tík frá honum, Skottu sem Panda kom undan. „Panda var fyrsta ræktunin mín,“ segir Elísabet. „Hún hafði einstakt geðslag. Var bæði ákveðin en einnig blíð og góð. Það var hægt að kenna henni allt og ekkert gat sett hana úr jafnvægi.“

Það er einmitt lykilþáttur í því að Panda var valin til þess að leika í bíómyndum. Hún gat haldið fókus innan um alls kyns reykvélar, vindvélar, stórar tökuvélar og mikið margmenni.

Fyrsta myndin sem Panda lék í var Hrútar, eftir Grím Hákonarson, tekin upp í Bárðardalnum árið 2014. Elísabet var spurð hvort hún ætti hund sem gæti bæði smalað og leyst ákveðin verkefni en Elísabet hafði þá nýlokið hundaþjálfaranámi með Pöndu sem sitt helsta tilraunadýr.

Næsta verkefni var stórmyndin Eurovison Song Contest: The Story of Fire Saga, sem var að hluta til tekin upp á Húsavík árið 2019. Elísabet segir að Panda hafi þá reyndar verið fyrir utan ramma. Hennar hlutverk var að halda fénu á réttum stað fyrir myndatökuna.

Panda við tökur í Hörgárdal.
Fréttablaðið/Robert Garcia

„Það er mikil áskorun að stýra hundi í kvikmyndatöku, bæði fyrir hundinn sjálfan og þann sem stýrir,“ segir Elísabet. „Þetta verður að ganga vel því að hver taka er dýr og tíminn sömuleiðis.“

Lokaverkefni Pöndu á hvíta tjaldinu var myndin Lamb (Dýrið), eftir Valdimar Jóhannsson, tekin upp í Hörgársveit. Myndin verður frumsýnd hér á landi í haust en var heimsfrumsýnd á kvikmynda­hátíðinni í Cannes í sumar.

Á Cannes hlaut Panda áðurnefnd verðlaun, sem eiga sér tuttugu ára sögu á hátíðinni. Hundar úr ýmsum þekktum bíómyndum hafa síðan þá hlotið verðlaun á hátíðinni, þar á meðal Lars von Trier-myndunum Dogville og Antichrist og Quentin Tarantino-myndunum Inglourious Basterds og Once Upon a Time in Hollywood.

Elísabet jánkar því að vera montin af verðlaununum. „Heldur betur. Þetta var agalega gaman,“ segir hún. Aðspurð um hugsanlegan arftaka Pöndu í bíómyndageiranum segist Elísabet vera farin að huga að því. „Ég er með marga hunda sem eru flinkir fjárhundar en ég er að hugsa um að koma mér upp öðrum hundi eins og Pöndu sem getur gert allt milli himins og jarðar,“ segir hún.

Panda við tökur á Dýrinu í Hörgárdal.
Fréttablaðið/Aðsent