Persian path er nýr geisladiskur með gítar- og strengjaleikaranum Ásgeiri Ásgeirssyni. Þetta er fimmti sólódiskur Ásgeirs og sá þriðji og síðasti í Þjóðlagaþríleiknum, þar sem Ásgeir ferðast með íslenska þjóðlagið á framandi slóðir.

Ótrúleg gestrisni


„Þetta byrjaði fyrir tíu árum. Þá var ég beðinn um að spila hér á landi með búlgörskum harmoníkuleikara sem bauð mér að koma til Búlgaríu og læra meira um austur-evrópska tónlist. Ég gerði það, var hjá vini hans í þrjár vikur og sá kenndi mér á hverjum einasta degi á hljóðfæri er nefnist tamboura, átta tíma á dag í 40 stiga hitakófi í Plóvdiv í Búlgaríu. Ég bjó heima hjá honum og gestrisnin var svo ótrúleg að eftir dvölina ætlaði ég að gera upp við hann en hann tók það ekki í mál, sem er dæmigerð gestrisni fyrir fólk frá þessum slóðum.

Frá þessum tíma hef ég stöðugt fetað mig lengra og sótt einkatíma í Grikklandi, Tyrklandi, Marokkó, Indlandi og Íran. Árið 2016, þegar ég var staddur við nám í Istanbúl, fékk ég þá hugmynd að nota íslenska þjóðararfinn og semja eigin laglínur við hann en útsetja í austrænum anda.“

Árið 2017 kom út diskurinn Two sides of Europe, unninn með nokkrum af fremstu hljóðfæraleikurum Tyrkja. Árið 2018 kom út diskurinn Travelling through cultures, unninn með nokkrum af færustu hljóðfæraleikurum Búlgaríu og gestalistamönnum frá Indlandi, Grikklandi og Austurríki. Persian path, sem er nýkominn út, er unninn með nokkrum af fremstu hljóðfæraleikurum Írans, undir stjórn Hamid Khansari. Diskurinn var tekinn upp í Teheran, Istanbúl og á Íslandi í fyrra og á þessu ári. Söngurinn er í höndum Sigríðar Thorlacius, en einnig syngja þau Samin Ghorbani og Egill Ólafsson gesta-dúó í einu laganna.

Mikið lærdómsferli

„Ég fór til Írans árið 2018 til að hitta hljóðfæraleikarana, en við sendum síðan efni milli landa. Ég vann alla grunnvinnu í stúdíóinu heima hjá mér, sendi þeim grunnupptökur sem þau spiluðu ofan á, fékk svo til baka og fínpússaði,“ segir Ásgeir. Um lögin segir hann: „Þau eru um það bil 70 prósent frumsamin undir áhrifum af námi mínu í austrænni tónlist og 30 prósent íslenskt þjóðlag. Á Persian path eru einnig tvö alfrumsamin verk. Þjóðlögin valdi ég úr bók séra Bjarna Þorsteinssonar, fann fallega texta og laglínur og notaði það sem innblástur fyrir mínar eigin laglínur. Sem dæmi um lög á plötunni eru Runnin upp sem rósin blá og Ó, Guð minn herra, aumka mig.“

Ásgeir segir þjóðlagaþríleikinn hafa verið mikið lærdómsferli. „Ég hef lært ótrúlega mikið á síðustu tíu árum og það má segja að það hafi orðið algjör u-beygja á ferlinum og gert hann fjölbreyttari og skemmtilegri.“

Útgáfutónleikar hans með hljómsveit fara fram í Flóa Hörpu miðvikudagskvöldið 30. september klukkan 20.00.