Kvikmyndin Dýrið verður sýnd á 600 bíótjöldum í Bandaríkjunum en íslensk kvikmynd fengið aldrei áður fengið jafn mikla almenna dreifingu vestanhafs sem þykir til marks um hversu mikla trú þarlendur dreifingaraðili myndarinnar, A24, hefur á þessari frumraun leikstjórans Valdimars Jóhannssonar sem hóf óslitna sigurgöngu sína á kvikmyndahátíðinni í Cannes í júlí.

Haft er eftir David Laub hjá A24 að þar á bæ sé fólk fullmeðvitað um að Lamb er „einstök perla, aðgengileg, sorgleg og fyndin.“ Þá bætir hann við að viðbrögð við henni á forsýningum staðfesti þetta. Auk þess hafi yfir tíu milljónir horft á kynningarstiklu myndarinnar sem hann telur alla burði til að slá í gegn í Bandaríkjunum. „Við erum ofboðslega spennt fyrir því að frumsýna hana svona víða.“

Bond mun varla drepa Dýrið

Sýningar á Lamb og nýju James Bond myndinni, No Time to Die, hefjast samdægurs í Bandaríkjunum og hjá A24 er ekki talin nein ástæða til að óttast breska njósnarann þar sem myndin sé líkleg til að höfða til yngri áhorfendahóps en heldur tryggð við James Bond.


Dýrið fjallar um sauðfjárbændurna Maríu, sem sænska stórstjarnan Noomi Rapace leikur, og Ingvar, sem Hilmir Snær Guðnason leikur. Þau búa í fögrum en afskekktum dal og þegar dularfull vera kemur þar í heiminn ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, en þessi ákvörðun þeirra á eftir að hafa afdrifaríkar og skelfilegar afleiðingar.

„Þetta kemur mér því ekki á óvart en ég er kannski svolítið undarandi á hversu margir virðist umfaðma myndina, en mér finnst það hins vegar hafa verið yfirþyrmandi hversu breiður hópurinn er sem hefur tekið myndinni okkar fagnandi og ég er mjög þakklát og hissa,“ sagði Noomi við Fréttablaðið og hélt því vandlega til haga að viðtökur myndarinnar fylli hana auðmýkt.

Kvikmyndabransabiblíurnar, Variety og The Hollywood Reporter, eru meðal þeirra sem hafa farið mjög fögrum orðum um Dýrið og það síðarnefnda telur myndina upp með þeim myndum á Cannes sem megi teljast líklegar til þess að blanda sér í kapphlaupið um Óskarsverðlaunin.

Noomi hvergi brugðið

Stjarna myndarinnar, Noomi Rapace, sagði í nýlegu viðtali við Fréttablaðið að velgengni þessarar litlu, íslensku myndar hefði ekki beinlínis komið henni á óvart.

„Ég kom til bara til Íslands til þess að fæða Maríu og stíga inn í heim Valdimars og Sjóns. Og ég lít bara á allt sem hefur komið í kjölfarið sem stóra gjöf til mín. Upplifunin ein og sér var nóg var nóg fyrir mig, þannig að ég er mjög þakklát og vil ekki einu sinni hugsa út í hversu stór þessi mynd gæti orðið. Allt er bara plús núna og mér finnst við vera í klikkaðri og fallegri vegferð saman.“

Dýrið er sýnd á Íslandi í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói á Akureyri.