Í dag er dagur íslenskrar tónlistar haldinn hátíðlegur. Af þessu tilefni verður stutt athöfn í Hörpu þar sem einstaklingum og hópum eru veittar viðurkenningar fyrir góð störf í þágu íslensks tónlistarlífs. Þá kemur landsþekkt tónlistarfólk fram og flytur tónlist. Meðal þeirra er söngvaskáldið Snorri Helgason sem leikur eigin endurútsetningu á lagi úr ævintýrinu Pílu pínu eftir Kristján frá Djúpalæk.

Snorri hefur í nógu að snúast þessa dagana. Hann vinnur að nýrri plötu sem hann stefnir á að taka upp í janúar, auk þess sem hann sendir frá sér nýtt frumsamið jólalag sem kemur út á morgun.

„Ég gerði barnaplötu fyrir þremur árum sem heitir Bland í poka. Þetta nýja lag er barnajólalag sem poppaði inn í hausinn á mér og ég fíla. Þetta er eitthvert brasilískt rugl,“ segir Snorri léttur. „Ég var alltaf þarna á Skuggabaldri og sá um að bóka það. Síðan það lokaði er ég búinn að vera að semja fullt af stöffi og það er að ganga ágætlega,“ segir hann.

Talandi um tónleikastaði, hefur umræðan um skort á slíku húsnæði verið nokkuð hávær seinni ár.

„Staðan er skrýtin,“ segir Snorri spurður um málið. „Það eru lífsmörk á Húrra, sem er að fara aftur í gang. Steini Stef ætlar að breyta staðnum aðeins og það verður geðveikt að fá þann stað aftur inn. Það er staður sem getur tekið 300 manns en það er allt í lagi og næs ef það eru 80 manns. Alvöru sveitt venue,“ segir hann. Að sögn Snorra eru tónleikastaðir fáir í miðborginni. „Þarna er Mengi sem er mjög niche dót, það er staður sem á sína senu. Svo er Gaukurinn, sem er eiginlega eins. Með sína senu sem er þetta drag-dót og allt það dæmi. Það vantar almennan stað.“

Á bak við tjöldin í senunni

Snorri segist búa að dýrmætri reynslu sem bókari fyrir tónleikastaði og má gera því í skóna að það gefi honum dýrmæta innsýn í íslenskt tónlistarlíf. „Ég var á Húrra í fimm ár og hef alltaf verið á bak við tjöldin í þessu líka,“ segir hann. „Þegar ég var að vinna þar horfði ég á það þegar hipphoppið tók yfir. Við notuðum ekki trommusettið eða bassamagnarana í tvö ár. Það voru allir að gera hipphopp.“

Snorri segir að rokkið hafi ekki átt mikið upp á pallborðið á þeim tíma, að undanskilinni metal-senunni. „Þegar ég byrjaði í Sprengjuhöllinni voru þetta alltaf indí-hljómsveitir. Nú er það að koma aftur. Það er indí-senan og Póstdreifing og allt það, sem er mjög skemmtilegt.“

Aðspurður hvort endurkoma senunnar sé afleiðing af inniveru og tónleikaskorti í heimsfaraldri, svarar Snorri: „Ég get ekki útskýrt það. En framboðið á jólatónleikum er algjör bilun og hefur aldrei verið meira. Það gengur illa að selja á allt, líka á Jólagesti Björgvins og Baggalút,“ segir hann. „Það gengur verr en fyrir Covid. Fólk er ekki alveg komið í æfingu, að fara á tónleika. Ég heyri frá fólki sem vinnur venjulega vinnu, ekki eins og ég, að á stórum vinnustöðum vilji fólk bara vinna heima hjá sér og sé enn í svoleiðis fasa,“ segir Snorri og bætir við að fólk þurfi að endurlæra að vera í kringum annað fólk. „Þessi hjól eru lengi að fara af stað ef þau eiga að vera aftur eins og þau voru fyrir.“

Erfitt að spá í framtíðina

Snorri segir að hipphopp-senan standi þrátt fyrir það mjög sterkt. „Það teygist á þessu hipphopp-hugtaki. Aron Can er poppari, þó að hann sé í grunninn úr hipphoppinu. Ég veit ekki hvernig hann myndi skilgreina sig en hann er til dæmis hjúts, einn af þessum stærstu. Svo er Emmsjé Gauti algjör hipphopp-kakkalakki. Hann lifir af og er vinsæll, hvað sem gerist.“

Að sögn Snorra er erfitt að segja til um hvað gerist næst. „Ég fann að þegar ég var á Húrra var allt í hipphoppi og mjög textabaserað. Ef það er eitthvað eitt sem er voða vinsælt og allir eru að gera, þá kemur alltaf eitthvað nýtt sem er algjörlega öfugt við það. Í indí-rokkinu er til dæmis miklu minni áhersla á texta.“