Par sem gifti sig um daginn fékk krútt­lega gjöf frá Ís­lenska gáma­fé­laginu í til­efni dagsins. Í gjöfinni var leik­fanga-gáma­bíll, freyði­vín og fleira. Það er ekki venja fyrir­tækisins að gefa ný­giftum hjónum gjafir en þau máttu til með að vera með í giftingunni eftir að hafa verið hluti af bón­orðinu.

Sumarið 2018 trú­lofuðust þau Rann­veig og Magnús. Á sama tíma og Rann­veig sagði já við bón­orðinu keyrði bíll frá gáma­fé­laginu fram hjá og sést í bak­grunninum á öllum myndunum sem parið á af bón­orðinu.

Mikið hefur verið hlegið af upp­á­komunni og hún var greini­lega eftir­minni­leg þar sem sagan var líka sögð í giftingar­veislunni.

Í Face­book-færslu Ís­lenska gáma­fé­lagins segir meðal annars: „Við viljum óska Rann­veigu og Magnúsi inni­lega til hamingju með hvort annað, okkur þykir ein­stak­lega gaman að hafa fengið að taka þátt í deginum ykkar.“