Nýlegar niðurstöður rannsóknarhóps í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sýna að svefntími unglinga styttist að meðaltali um nærri hálfa klukkustund milli 15 og 17 ára aldurs. Á sama tíma dregur töluvert úr hreyfingu á virkum dögum hjá þessum hópi.

Rannsóknarhópurinn hefur fylgst með heilsu, svefni og andlegri líðan stórs hóps íslenskra ungmenna í rúmlega áratug, að sögn Erlings S. Jóhannssonar, prófessors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og verkefnisstjóra rannsóknanna. Hann segir að í fyrri hluta langtímarannsóknar (Heilsuhegðun ungra Íslendinga) hafi áhrif tveggja ára íhlutunaraðgerða á holdafar, hreyfingu, mataræði og námsárangur auk fjölmargra annarra heilsufarsþátta verið skoðuð hjá reykvískum börnum fæddum 1999. Mælingar voru gerðar við 7 og 9 ára aldur.

„Niðurstöður voru mjög athyglisverðar en þær gáfu til kynna að hægt er að auka hreyfingu og stuðla að hollara mataræði með samstilltu átaki heimila og skóla. Árið 2015 er þátttakendur voru í 10. bekk grunnskóla voru þau rannsökuð í þriðja sinn og þá var svefn þeirra einnig skoðaður. Þessi ungmenni voru síðan rannsökuð í fjórða sinni árið 2017 en þá voru þau komin í framhaldsskóla. Að skoða stöðu áhættuþátta heilbrigðis hjá ungum Íslendingum og langtímabreytingar á fjórum tímapunktum, það er þegar þau eru 7, 9, 15 og 17 ára, er mjög dýrmætt og í raun mikilvægar lýðheilsuupplýsingar. Þessi aukna vitneskja á að auðvelda heilbrigðisyfirvöldum að gripa til réttrar aðgerða á sviði forvarna í framtíðinni.“

Ungmenni sofa ekki nóg

Á vormánuðum 2015 voru nemendur í sex mismunandi grunnskólum í Reykjavík rannsakaðir. Niðurstöður sýndu að íslensk ungmenni fara seint að sofa (að meðaltali kl. 00.22) og sofa stutt, en að meðaltali var heildarsvefntími á virkum dögum 6,2 klukkustundir og um helgar 7,3 klukkustundir, segir Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði, en doktorsverkefni hennar snýr að breytingum á svefni og hreyfingu þessa unglingahóps með tilliti til vals á framhaldsskóla. „Þannig ná aðeins 23% stúlkna og 20% stráka að uppfylla viðmiðunarsvefn sem er samkvæmt ráðleggingum að lágmarki 8 klukkustundir á nóttu.“

Vorið 2017, þegar unglingarnir voru flest byrjaðir í framhaldsskóla, kom í ljós að þeir fara að meðaltali enn seinna að sofa (kl. 01.38) og sofa ennþá styttra (6 klukkustundir), bætir Rúna Sif við. „Aðeins 13,3% náðu viðmiðum um ráðlagðan svefntíma (8 klukkustundir) og svefn unglinga styttist að meðaltali um 24 mínútur á nóttu milli 15 og 17 ára aldurs. Það sem meira er að á tveimur árum jókst breytileikinn enn frekar í svefni unglinganna.“

Tengsl milli svefns og holdafars

Þau segja að þegar tengsl svefns og lifnaðarhátta séu skoðuð hafi verið jákvæð fylgni á milli breytileika á svefni og holdafari. „Breytileiki í svefni kemur þegar einstaklingur er að fara að sofa og vaknar á mjög óreglulegum tímum yfir vikuna. Þessi breytileiki hefur áhrif á holdafar hjá íslenskum ungmennum. Augljóst er að meiri breytileiki sést á svefni þeirra nemenda sem greina frá meiri skjátíma og þeirra sem mælast með minni hreyfingu, sérstaklega meðal drengja.“

Annað sem kom þeim á óvart var að nemendur sem stunda nám í fjölbrautakerfi sváfu lengur á skóladögum en nemendur í bekkjakerfi. „Aftur á móti fóru nemendur í bekkjakerfi fyrr á fætur og það gerði að verkum að þeir nemendur voru að sofa að meðaltali um 25 mínútum styttra. Hins vegar sást enn meiri breytileiki í svefni ungmenna sem voru í fjölbrautakerfi miðað við bekkjakerfi.“

Jafnaldrar í Evrópu sofa lengur

Það helsta sem þau draga fram með rannsóknum sínum er að niðurstöður benda til þess að nemendur sofi lengur þegar þeir hafa tækifæri til þess og því gæti seinkun skólabyrjunar aukið svefnlengd ungmenna og svigrúm til svefns. „Þetta getur verið mikilvægt að skoða þar sem rannsóknir okkar sýndu að svefn hafði áhrif á hugræna þætti eins og minni og einkunnir.“

Rannsóknir hafa verið gerðar á svefnmynstri unglinga í nágrannalöndum að þeirra sögn og segja þau áhugavert að sjá að íslensk ungmenni sofa styttra og fara seinna að sofa miðað við jafnaldra sína í Evrópu. „Hins vegar þurfa íslenskir unglingar að vakna á svipuðum tíma til að fara í skólann og það er trúlega helsta ástæðan fyrir að þeir eru að sofa svona stutt. Það geta samt verið fleiri utanaðkomandi ástæður og yfir höfuð hafa íslenskar rannsóknir sýnt að svefn Íslendinga á öllum aldri er stuttur. Önnur mögulega skýring er mikil neysla orkudrykkja og koffíndrykkja meðal íslenskra ungmenna.“