Akam, ég og Annika, er fyrsta skáldsaga sjúkraþjálfarans Þórunnar Rakelar Gylfadóttur sem segir hana í raun vera fyrir alla aldurshópa þótt hún hafi verið skrifuð fyrir unglinga og bendir á að skjólstæðingar hennar hafi hrifist af bókinni og verði tíðrætt um hana.

Þá hefur bókin hlotið tilnefningar til Fjöruverðlaunanna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna en Þórunn Rakel hafði aldrei skrifað bók áður en hún settist niður til að skrifa Akam, ég og Annika.

„Þetta er bara búið að vera ævintýri,“ segir Þórunn sem hefur verið sjúkraþjálfari alla sína starfsævi. „Þetta er unglingasaga en ég er ekki síst þakklát fyrir það að lesendur allt frá tíu ára og upp í 100 eru að lesa söguna og mér finnst þetta eiginlega bara vera fjölskyldusaga.“

Þórunn segir alla geta samsamað sig sögunni sem fjallar um hina fjórtán ára gömlu Hrafnhildi sem neyðist til að flytja til Þýskalands með fjölskyldu sinni. Nýi skólinn er mjög strangur og það er erfitt að vera nýja stelpan í bekknum en þrátt fyrir það virðist vera til verra hlutskipti, eins og því er lýst á bókarkápunni.

Mágkonan kom skáldsögunni af stað

„Kveikjuna að söguþræðinum fékk ég frá mágkonu minni sem bjó í Þýskalandi. Hún sagði mér litla sögu af dóttur sinni, frænku minni, og sú örsaga heltók mig og ég vissi um leið og ég heyrði þá sögðu að ég myndi búa til skáldsögu í kringum það atvik,“ segir Þórunn.

„Það var svona atvik þar sem unglingsstúlka stóð frammi fyrir því vali að verja aðra eða standa atkvæðalaus hjá. Og hún lét til sín taka,“ útskýrir rithöfundurinn.

„Þetta heltók mig og það kemur fram í bókinni í annarri mynd og svo varð til allt önnur saga í kringum það. Þessu bara vatt fram í huga mér þar til ég varð hreinlega að setjast niður og skrifa söguna. Þetta var eins og lítill snjóbolti sem varð að stórri snjókúlu í huga mér,“ segir Þórunn.

„Ég fer mikið á milli skjólstæðinga á hjóli, ég geng mikið á fjöll og alltaf þegar ég hreyfði mig þá fór sagan af stað. Þetta var svolítið mikið bundið við hreyfingu hjá mér og svo á endanum þurfti ég bara að setjast niður og koma henni áleiðis.“Þórunn segist ekki áður hafa lent í því að fá yfir sig slíka andagift.

„Ég var alveg staðráðin í að skrifa þetta. Svo er líka gaman að segja frá því að ég skrifa söguna úti á Kanaríeyjum, í Suður-Ameríku og á Kúbu því ég var á ferðalagi og svo skrifaði ég hana líka á Íslandi svo hún er skrifuð víða um heim þessi saga.“