Ísland lenti í fjórða sæti af 28 í úrslitakeppni tónlistarkeppninnar Wacken Metal Battle, sem fór fram á hátíðinni Wacken Open Air í gær og fyrradag. Tilkynnt var um úrslitin á fjölmiðlafundi í Wacken, Þýskalandi, síðdegis í dag.

Fulltrúi Íslands í keppninni var þungarokkshljómsveitin Múr. Sveitin hafði áður unnið Íslandsriðil keppninnar á Húrra í maí síðastliðinn.

Sigurvegari keppninnar var japanska hljómsveitin Sable Hills. Í öðru sæti var sveitin Vida frá Argentínu og í þriðja Lamentari frá Danmörku. Hollenska hljómsveitin Nephylim fékk jafnmörg stig og Múr og deilir því fjórða sætinu með Íslendingum.