Kynslóð er fyrst og fremst ástarsaga um ungar konur í sveit og spurninguna um hvort það sé framtíð í sveitinni og hver hún sé þá. „Flestar sveitasögur í nútímanum eru ferðasögur Reykvíkings sem fer í heimsókn í sveitina og segir frá því sem fyrir augu ber. Mig langaði til að skrifa sveitasögu sem kemur innan frá. Ég er sjálf bændadóttir, bý í sveit og þekki þetta líf,“ segir Harpa Rún.

Kyn-slóð

„Kynslóð fjallar líka um hvernig við erfum hluti, takta, áföll og lífsskoðanir gegnum kynslóðina. Hvernig við vinnum úr þessu öllu, mynstrin sem við erum að reyna að brjóta og hvað við tökum með okkur. Þaðan kemur orðaleikurinn í titlinum, sem vísar í kynslóðina sem liggur mann fram af manni, en líka slóðina sem kyn þitt og ætt markar þér. Þú þarft að feta ákveðna slóð og þá er spurning hvort þú farir beinustu leið eða stígir út af, hvort þér bjóðist margar leiðir eða bara ein.

Mæðgurnar Anna og Helga eru á aldrinum 20-40 ára. Báðar eru í leit að sjálfri sér og standa á vegamótum og þurfa að velja sína slóð, með allt þetta á bakinu. Þær standa í svipuðum sporum og margt ungt fólk í sveitinni í dag, og ungt fólk yfir höfuð. Mamman, Helga, týndi sér og staðnaði og er að mörgu leyti í sömu sporum og dóttirin. Anna hefur komið sér betur fyrir. Allt virðist eins og það á að vera uns nýr starfsmaður kemur í vinnuna. Hann er undarlegur og óþægilega líkur henni. Hann getur speglað sig óeðlilega mikið í henni og truflar líf hennar og takt. Svo kemur í ljós að hann er kannski dularfyllri en maður heldur í upphafi. Anna þarf því að hugsa sína stöðu upp á nýtt.“

Enginn Íslendingur viðurkennir trú sína á huldufólk eða bollaspár. Samt hróflar enginn við álagabletti.

Óvart kvennasaga

„Þetta varð óvart kvennasaga. Upphaflega vildi ég skrifa um yngstu konuna í bókinni, Önnu, sem er 25 ára. Ég var á sama aldri og tengdi mest við hana. Þegar ég tók bókina aftur upp fimm árum síðar, fannst mér sú nálgun leiðinleg. Þá komu mamman og amman inn.

Þetta tengist því að eldast og þroskast og fá áhuga á öðru en sjálfum sér. Ef ég ætti að skrifa fleiri bækur í sama bókaflokki færi ég líklegast aftur í tímann og skoðaði líf eldri persónanna í bókinni.“

Töfrarnir eru túlkunaratriði

Í bókinni eru heilmiklir töfrar. „Ég vildi alltaf skrifa töfraraunsæisskáldsögu, enda hélt ég mest upp á þær bókmenntir þegar ég var yngri. Í íslenskri sveitasögu varð ég að nálgast töfraraunsæið á eigin forsendum. Upp spruttu þjóðsagnaskepnur og huldufólk. Þarna eru líka bollaspádómar og yfirskilvitlegar tengingar milli fólks. Enginn Íslendingur viðurkennir trú sína á huldufólk eða bollaspár. Samt hróflar enginn við álagabletti.

Hverju trúirðu þá?

Við erum hætt að trúa, en trúum nú samt í þjóðarsálinni. Mig langaði að draga þetta fram, láta söguna gerast á tveimur plönum. Líkt og hægt er að afneita töfrunum í raunveruleikanum getum við lesið bókina fram hjá töfrunum. En ef þú trúir á töfrana ætti bókin að dýpka um helming.

Ég vil treysta lesandanum og leyfa honum að taka það sem hann vill með sér, frekar en að tyggja ofan í hann. Endirinn gefur svo færi á að líta til baka og halda áfram að hugsa.

Endirinn fer í taugarnar á mörgum en mér finnst gott að vita að lesturinn sé ekki bara neysla sem þú gleymir um leið og síðustu blaðsíðu sleppir.“

Ég er ekki að skrifa Dalalíf

Ósjaldan hefur Kynslóð verið líkt við höfundarverk Guðrúnar frá Lundi. „Ég held að ég hafi ekki sjálf líkt mér við hana, en annað fólk hefur gert það. Ég er mjög stolt af því að vera líkt við Guðrúnu, enda er hún mín kona. Hún er klárlega fyrirmynd allra sem bögglast við að skrifa sveitasögur í dag á Íslandi. Þar er hún stóri höfundurinn. Það er viljandi að tveir karakterar heita Anna og Þóra eins og kvenpersónurnar í Dalalífi en ég er ekki að skrifa Dalalíf. Guðrún var bæði eldri og þroskaðri en ég er.“

Fólk er líka að skemmta sér hér, verða fullt, dansa, en umhverfið er annað. Ég vildi sýna að djamm í bókmenntum er ekki bara að veltast á milli þriggja bara í miðbæ Reykjavíkur.

Meira framandi en Hogwarts

„Á þeim tíma sem Guðrún er að skrifa, eftirstríðsárunum, er sveitin miðpunkturinn og Reykjavík er jaðarinn. Í sveitinni er allt gott en í Reykjavík er allt hræðilegt. Í dag er Reykjavík orðin miðpunktur og sveitin er jaðarinn. Íslenskir höfundar í dag sem skrifa um sveitina, sjá hana með auga gestsins, þeir eru að skrifa ferðasögu, og íslenska sveitin er jafnvel orðin exótískari en Namibía.“

Einn kafli segir frá fólki að stinga upp fjárhús, eitthvað sem meginþorri þjóðarinnar hefur aldrei gert. Í bókinni eru líka notuð ýmis orð sem fólk í dag þekkir ekki. „Það er þarft verkefni að skila þessum heimi til lesenda sem þekkja hann ekki, og til fólks sem lifir og hrærist í honum og fær sjaldan að sjá hann í bókmenntunum. Ég skrifa líka um það sem er eins í sveitinni og í borginni, eins og djammið. Fólk er líka að skemmta sér hér, verða fullt, dansa, en umhverfið er annað. Ég vildi sýna að djamm í bókmenntum er ekki bara að veltast á milli þriggja bara í miðbæ Reykjavíkur.

Einn yfirlesari spurði mig hvort ég vildi virkilega skrifa eitthvað sem enginn myndi skilja í dag. Ef fólk getur lesið bók sem gerist í Namibíu, eða jafnvel uppdiktuðum raunveruleika eins og Hogwarts, þá hlýtur lesandi að geta sett sig í aðstæður sveitarinnar. Það er í raun stórfurðulegt að búa í pínulitlu landi þar sem skiptingin er svona skýr og óyfirstíganleg.“

Ekki alltaf kall og dóni

Aðspurð segir Harpa að auðvitað sé femínismi í bókinni. „Hann er bæði undirliggjandi og blygðunarlaus. Ein konan, sem heitir Þóra, er alltaf að rífast við kallaborðið í sjoppunni og ranta um femínisma. Svo fjalla ég líka um sveitina, sem fólki finnst vera karlaheimur, en er í raun ekki síður kvennaheimur. Það er alltaf talað um bóndann og konu hans, en yfirleitt eru hjón jafnmiklir bændur. Þess vegna segist ég alltaf vera bændadóttir. Mamma er alveg jafnmikill bóndi og pabbi. Bókin er um konurnar bak við tjöldin og hvort þær þurfi yfir höfuð á körlunum að halda. Svo hræra nokkrir hinsegin karakterar upp í venjulegum hugmyndum. Til dæmis sefur einn prestur hjá konu út undir húsvegg. Presturinn er bæði kona og innflytjandi. Ég vildi snúa upp á mýtuna að presturinn í sveitinni væri alltaf kall og dóni.“

Hvernig kallast sagan á við samtímann?

„Ég vil endurspegla raunsanna mynd af íslenskri sveit og sýna að hér býr fólk á öllum aldri. Sagan er um ungt fólk í tilvistarkreppu sem er stillt upp við hliðina á landbúnaði. Fólk sem er að leita að nýjum leiðum til að láta nútímann virka í sveitinni. Sama saga hefði allt eins getað gerst í Breiðholti, en mig langaði að draga fram umhverfi sem mér þykir vænt um og sýna hvernig það stendur á krossgötum, líkt og persónur bókarinnar. Þetta er ekki bara frosin fortíð. Tíminn líður þó fólk vilji helst að sveitin sé alltaf eins og þegar það fór í heimsókn til ömmu og afa. Framfarir eru í búskaparháttum, fólk er með snjallsíma á djamminu og landbúnaðurinn og umhverfið mótar fólkið á áhrifaríkan hátt.

Ég er oft spurð út í allt kynlífið í bókinni. Kynorkan og kynlífið eru nátengd náttúrunni. Það er í raun ómögulegt að skrifa sveitasögu án þess að skrifa um kynlíf. Búskapurinn snýst um þetta og svona virkar náttúran.“

En hvað er skáldið sjálft að lesa?

„Ég er að klára Kolbeinsey eftir Bergsvein Birgisson og er nýbúin að lesa Allir fuglar fljúga í ljósið eftir Auði Jónsdóttur. Þær eru báðar mjög flottar og áhugaverðar og lifa áfram eftir að lestri lýkur. Ég er annars spennt að lesa Fríríkið eftir Fanneyju Hrund Hilmarsdóttur, Næturborgir eftir Jakub Stachowiak, Olíu eftir Svikaskáldin og Meydóm eftir Hlín Agnarsdóttur.“