Ferða­þjónustu­tíma­ritið og vef­síðan Time out birti í vikunni lista af 23 bestu hlutunum til að gera á árinu 2023. Númer eitt á listanum er að heim­sækja sjó­böðin í Hvamms­vík sem eru í eigu at­hafna­mannsins Skúla Mogen­sen og opnuðu í fyrra.

„Gleymdu Bláa Lóninu – á þessu ári er nýjasta jarð­hitaða spa-ið Hvamms­vík sem opnaði dyr sínar fyrir gesti í fyrra,“ segir í lýsingu Time out og fólki bent á að hægt sé að fara út í sjó og synda með selum.

Skúli segir það ó­trú­legan heiður að böðin hafi ratað á listann og segist afar þakk­látur starfs­fólki sínu sem hefur lagt mikið á sig við að búa til eitt­hvað ein­stakt fyrir gesti þeirra.

„Þetta er magnað. Það eru um 60 milljónir sem skoða þessa síðu í hverjum mánuði held ég,“ segir Skúli og að það sé ó­trú­lega skemmti­leg viður­kenning að hafa ratað á listann á sama tíma og það sé ó­vænt.

„En við höfum auð­vitað frá fyrsta degi unnið að því að búa til eitt­hvað ein­stakt og það er magnað að fá ekki bara viður­kenningu á ein­hvers konar af­þreyingu frá Ís­landi heldur bók­staf­lega erum við númer eitt á öllu sem á að gera í heiminum á þessu ári,“ segir Skúli.

Skjáskot úr grein Time out.
Skjáskot/Time out

Best í blindyl

Hann segist ekki hafa ná­kvæma tölu á því hversu margir eru búnir að heim­sækja sjó­böðin en að þau fylgist vel með á­nægju­stigi gesta og að það hafi verið fram­úr­skarandi frá opnun. „Þetta er ein­stakt og ekki eins og aðrar laugar eða önnur af­þreying. Þarna eru í beinum tengslum við náttúruna og getur verið í beinum tengslum við sjóinn og ert með allt um­hverfið beint í æð,“ segir Skúli.

Hann segir að við sem búum við gular og appel­sínu­gular við­varanir séum mörg orðin leið á þeim en að það sé fyrir marga ferða­menn á­stæðan fyrir því að þau vilja koma og það sem gerir, fyrir þeim, Ís­land að ein­stökum á­fanga­stað.

„Þó það sé bras og vesen og við bölvum þessu á köflum þá er það ná­kvæm­lega þetta sem banka­kallinn frá New York er að sækjast í. Það er ein­hver frum­stæð eðlis­hvöt að sækjast eftir ein­hverju ævin­týri í frum­stæðu um­hverfi og það er ná­kvæm­lega það sem við erum að búa til,“ segir Skúli sem segir sjálfur að honum þyki skemmti­legast að fara í böðin í blind­byl.

„Allt snar­vit­laust. En þegar þú ert kominn ofan í 40 gráðu heita vél og sérð öldu­ganginn og brimið og himin­geimana skipta um lit fyrir ofan þig, það er alveg ein­stakt,“ segir Skúli að lokum.

Lista Time Out er hægt að skoða hér en annað á listanum er til dæmis lista­verka­sýning til heiðurs Pi­casso sem ferðast um heiminn, heimili lista­mannsins Serge Gains­bourg í París, að prófa matar­menninguna í Þránd­heimi í Noregi og að fugla­garðinn Jurong í Singa­púr.