Ferðaþjónustutímaritið og vefsíðan Time out birti í vikunni lista af 23 bestu hlutunum til að gera á árinu 2023. Númer eitt á listanum er að heimsækja sjóböðin í Hvammsvík sem eru í eigu athafnamannsins Skúla Mogensen og opnuðu í fyrra.
„Gleymdu Bláa Lóninu – á þessu ári er nýjasta jarðhitaða spa-ið Hvammsvík sem opnaði dyr sínar fyrir gesti í fyrra,“ segir í lýsingu Time out og fólki bent á að hægt sé að fara út í sjó og synda með selum.
Skúli segir það ótrúlegan heiður að böðin hafi ratað á listann og segist afar þakklátur starfsfólki sínu sem hefur lagt mikið á sig við að búa til eitthvað einstakt fyrir gesti þeirra.
„Þetta er magnað. Það eru um 60 milljónir sem skoða þessa síðu í hverjum mánuði held ég,“ segir Skúli og að það sé ótrúlega skemmtileg viðurkenning að hafa ratað á listann á sama tíma og það sé óvænt.
„En við höfum auðvitað frá fyrsta degi unnið að því að búa til eitthvað einstakt og það er magnað að fá ekki bara viðurkenningu á einhvers konar afþreyingu frá Íslandi heldur bókstaflega erum við númer eitt á öllu sem á að gera í heiminum á þessu ári,“ segir Skúli.

Best í blindyl
Hann segist ekki hafa nákvæma tölu á því hversu margir eru búnir að heimsækja sjóböðin en að þau fylgist vel með ánægjustigi gesta og að það hafi verið framúrskarandi frá opnun. „Þetta er einstakt og ekki eins og aðrar laugar eða önnur afþreying. Þarna eru í beinum tengslum við náttúruna og getur verið í beinum tengslum við sjóinn og ert með allt umhverfið beint í æð,“ segir Skúli.
Hann segir að við sem búum við gular og appelsínugular viðvaranir séum mörg orðin leið á þeim en að það sé fyrir marga ferðamenn ástæðan fyrir því að þau vilja koma og það sem gerir, fyrir þeim, Ísland að einstökum áfangastað.
„Þó það sé bras og vesen og við bölvum þessu á köflum þá er það nákvæmlega þetta sem bankakallinn frá New York er að sækjast í. Það er einhver frumstæð eðlishvöt að sækjast eftir einhverju ævintýri í frumstæðu umhverfi og það er nákvæmlega það sem við erum að búa til,“ segir Skúli sem segir sjálfur að honum þyki skemmtilegast að fara í böðin í blindbyl.
„Allt snarvitlaust. En þegar þú ert kominn ofan í 40 gráðu heita vél og sérð ölduganginn og brimið og himingeimana skipta um lit fyrir ofan þig, það er alveg einstakt,“ segir Skúli að lokum.
Lista Time Out er hægt að skoða hér en annað á listanum er til dæmis listaverkasýning til heiðurs Picasso sem ferðast um heiminn, heimili listamannsins Serge Gainsbourg í París, að prófa matarmenninguna í Þrándheimi í Noregi og að fuglagarðinn Jurong í Singapúr.