Það var planið frá upphafi að gera aðeins öðruvísi verk,“ segir Halldór. „Mig langaði að skrifa klassíska sögu sem væri dramatísk, og um stórar, tímalausar spurningar sem ættu jafn vel við í dag og fyrir tvö þúsund árum.“

Halldóri virðist hafa tekist vel til og gagnrýnandi Fréttablaðsins hafði á orði að bókin minnti einna helst á grískan harmleik. „Ég get alveg viðurkennt að ég er mikill áhugamaður um Forn-Grikkland, og ekki síst um bókmenntirnar sem þaðan komu. Ég var mjög spenntur fyrir hugmyndinni um að vera með tragíska hetju í íslenskum samtíma, svo framvindan yrði að einhverju leyti eins og í klassískum grískum harmleik.“

Revíur og góðir dátar

Þrátt fyrir að þessi bók sé eins konar frumraun hvað stíl og efnistök varðar segir Halldór að líklegt sé að hann muni halda áfram á þessu rófi. „Segja má að fyrstu þrjár bækurnar mínar hafi einhvers konar greiningar á tíðaranda, en nú finn ég mig betur í að skrifa hefðbundnari sögur. Manni fer fram í þessu eins og öðru og þá ræður maður betur við að skrifa dýpri og flóknari bækur en áður.“

Í sögunni bregður fyrir ýmsum ljóðum eftir Halldór sem á ekki langt að sækja ljóðlistarhæfileikana. „Langafi minn, Guðmundur Sigurðsson, var revíuhöfundur og mikill vísnakall. Það er mikið um einhvers konar vísnaást í minni ætt svo ég er sumpartinn alinn upp við þetta.“

„Ein af mínum uppáhaldsbókum hefur lengi verið Góði dátinn Svejk þar sem alls konar grínvísur brjóta upp frásögnina. Ég er mjög veikur fyrir rímuðu gríni og leikhúseinræðum og hef lengi viljað gera svona sjálfur. Þetta er líka þekkt minni úr Íslendingasögunum, að persónur bresti í kveðskap.“

Skáldagyðjur með tvöfaldan borgararétt

Halldór hefur verið búsettur í Berlín undanfarin ár en sneri heim til Íslands þegar kófið skall á. Hann segist ekki viss um hvenær né hvort hann muni fara aftur út.

„Ég hef búið þarna síðustu tvö ár sem væntanlega hefur haft sitt að segja við þessi bókarskrif,“ segir hann. „Ég dýrka Berlín en ég hef alltaf vitað frá upphafi að ég yrði þar ekki til langframa. Þótt borgin sé dásamleg þá hefur hún líka sínar skuggahliðar.“

Búsetan hefur án efa litað út frá sér segir Halldór þótt hugmyndavinnan og skrifin lúti sömu lögmálum. „Skáldagyðjan kom eins fram við mig á báðum stöðum þótt maður kynnist óhjákvæmilega miklum jaðar í borgum eins og Berlín,“ segir hann.

Bráðabirgðataóismi

Bróðir hefur fengið góðar viðtökur en Halldór segir hverja bók taka sinn toll. „Ég er venjulega eins og kreist sítróna eftir að hafa gefið út bók. Þetta er bæði rosalegt spennufall og mikið álag,“ segir hann.

Þá hefur faraldurinn líka sett strik í reikninginn. „Ég veit bara ekkert hvernig bóksala gengur núna, eða hvernig þetta verður í desember. Maður verður bara að gerast einhvers konar taóisti eða búddisti og segja sjálfum sér að þetta sé ekki í manns eigin höndum. Það er rosalega hverful tilvera að vera rithöfundur, en ég þakka bara fyrir að fá að sinna þessu á meðan ég get.“