Málþroski barna og málvitund barna og unglinga er þeim sem bera hag íslenskunnar fyrir brjósti oft áhyggjuefni, einkum þó þegar í hlut eiga erlendar efnisveitur sem sjá börnum fyrir afþreyingarefni. Hjá Sýn sem áður var Vodafone hafa þessi málefni verið tekin föstum tökum og í samstarfi við bresku efnisveituna Hopster hefur verið ráðist í metnaðarfulla nýyrðasmíði á helsta áhugasviði margra ungra barna, risaeðlum. Þetta verkefni hlaut tilnefningu til hvatningarverðlauna viðskiptalífsins um eftirtektaverða notkun á íslenskri tungu. Þóra Björg Clausen er rekstrarstjóri nýmiðla Sýnar.

„Hopster er efnisveita fyrir börn sem hefur verið hægt að nálgast hjá Vodafone og Sýn í svona þrjú ár,“ segir Þóra Björg um tildrög verkefnisins. „ Þetta er bresk efnisveita og við höfum í samstarfi við þau þýtt allt efni sem kemur inn á efnisveituna, þar með talið appið sem fylgir með áskriftinni. Þetta hefur verið stórt verkefni sem við höfum tekist á hendur af festu og áhuga enda finnst okkur afar mikilvægt, á tímum alnetsins, að börn geti nálgast efni á góðu íslensku máli.“ Ein af þáttaröðunum sem íslenskum börnum býðst að horfa á í gegnum Hopster efnisveituna heitir Ég er risaeðla þar sem risaeðlur og eiginleikar þeirra eru kynntir. Hver þáttur heitir eftir þeirri risaeðlu sem verið er að fjalla um hverju sinni. „Þegar verið var að þýða þættina kom í ljós að það eru ekki til ísensk heiti yfir allar risaeðlurnar og þá þurfti þýðandinn okkar að vera skapandi og finna nöfn,“ segir Þóra. Leitað var samstarfs víða svo allt yrði sem best gert úr garði. „Við leituðum til risaeðlusérfræðings til að fá sem réttastar upplýsingar um eðli og útlit þeirra risaeðla sem um var rætt og einnig var rætt við stofnun Árna Magnússonar um hvort til væru íslensk nöfn á þessar tilteknu risaeðlur. Árnastofnun kom með tillögur og það var ánægjuleg reynsla að nýta þessa stofnun okkar til að finna nöfn sem kannski eru ekki mikið notuð eða búa til nýyrði í íslensku máli.

Þóra Björg segir mikla vinnu hafa farið í að íslenska Hopster. „Þetta er bresk efnisveita eins og áður sagði og þar er allt efni yfirfarið af teymi sérfræðinga, uppeldisfræðingum og sálfræðingum í Bretlandi og vottað „kidsafe“ eða barnvænt, áður en það fer í loftið,“ segir hún en efnið á veitunni er helst ætlað börnum á aldrinum tveggja til sex ára. „Þegar barnið þitt er að horfa á Hopster efni geturðu þar af leiðandi verið viss um að efnið stuðlar að góðum þroska. Okkur fannst mikilvægt að stuðla að þroska á sem flestum sviðum og vildum taka það með í íslensku útgáfuna af efninu að það stuðlaði að góðum málþroska.“ Hopster sýndi strax mikinn skilning og áhuga enda í stefnu fyrirtækisins að stuðla að þroska barna á sem flestum sviðum. „Metnaður Hopster til að skila góðu verki hvað varðar íslenskun á efninu var það mikill að þeir réðu til sín íslenskan starfsmann til að sinna okkur svo það hefur allt verið lagt í að gera þetta eins vel og hægt er,“ segir Þóra og bætir við að efnisveitan breska hafi notað íslensku leiðina sem fyrirmynd í viðræðum við viðskiptavini á öðrum málsvæðum. „Hopster er mjög stoltur samstarfsaðili okkar og hefur fundist mjög gott að vinna með okkur,“ segir Þóra. „Þegar fyrirtækið kynnir sig fyrir aðilum sem eru að hugleiða viðskipti nota þeir íslenska risaeðluverkefnið sem dæmi um hvernig samstarf gæti gengið fyrir sig.“

Hopster efnisveitan er tilnefnd til BAFTA children’s award og sú verðlaunaathöfn fer fram í lok nóvember. „Þar er Hopster að keppa við alla stærstu aðilana á þessum markaði svo þarna er greinilega verið að gera mjög góða hluti,“ segir Þóra. „Við hjá Sýn erum síðan tilnefnd til hvatningarverðlauna viðskiptalífsins um eftirtektarverða notkun á íslenskri tungu. Við erum auðvitað mjög ánægð með það og stolt af því að þessi viðleitni okkar til að styðja við málþroska barna skuli vekja athygli. Það hvetur okkur til að halda áfram á sömu braut.“

Viðskiptaráð Íslands, Stofnun Árna Magnússonar og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð kölluðu eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna viðskiptalífsins um eftirtektarverða notkun á íslenskri tungu. Eliza Reid, forsetafrú Íslands, afhendir verðlaunin í dag.

Fjaðureðla og fiseðla

Hér má sjá dæmi um þau risaeðlunöfn sem þýða þurfti sérstaklega í þáttaröðinni Ég er risaeðla.

 

Beipiaosaurus - Fjaðureðla

Microseratus - Goggeðla

Afrovenator – Afríkurumeðla

Jobaria - Graseðla

Bavarisaurus – Bæjaralandseðla

Elaphrosaurus – Fiseðla