Almennar sýningar á hasarmyndinni Leynilögga, sem landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi Hannes Þór Halldórsson leikstýrir, hefjast í dag. „Upphaflega pælingin var alltaf að gera bíómynd sem væri eins skemmtileg og mögulegt væri fyrir íslenska áhorfendur þannig að við erum búin að bíða mjög spennt eftir því að geta loksins sýnt Íslendingum myndina,“ segir Hannes.

„Það er bara mjög mikill spenningur. Við höfum fengið góðar viðtökur erlendis en það er í rauninni bara bónus, myndi ég segja vegna þess að það er hér á Íslandi sem myndin á heima.“

Sagan mallaði í áratug

Sköpunarsaga Leynilöggu er orðin nokkuð löng en grunnhugmyndin varð til þegar Auðunn Blöndal og Sveppi kepptu í stiklugerð í sjónvarpsþætti sínum 2011. Þá fékk Auddi Hannes Þór til liðs við sig og þeir gerðu treiler fyrir hasarmyndina Leynilöggu. „Ég gerði treilerinn með Audda fyrir tíu árum síðan. Fólk hafði gaman af honum og hann varð vinsæll og þá vaknaði áhugi á því að gera myndina,“ segir Hannes sem settist þá þegar niður með Audda og Agli Einarssyni og þeir lögðu línur sögunnar sem varð síðar fullburða handrit.

„Það hoppaði síðan aðeins á milli og var einhvern veginn við það að daga uppi þegar ég kom heim úr atvinnumennsku fyrir tveimur til þremur árum og við ákváðum að setja þetta aftur af stað.“

Vivian Ólafsdóttir sem leikur Stefaníu þjarmar hér að leikstjóranum.
Mynd/Aðsend

Ekki alveg bönnuð börnum

Leynilögga er sýnd í tveimur útgáfum. Þeirri upprunalegu sem er bönnuð innan sextán og mildari útgáfu sem fleiri geta séð. „Það var ekki þannig að við værum að reyna að gera aðra útgáfuna eitthvað grófari og það var í rauninni ekkert fyrr en við áttuðum okkur á því að við værum með mynd sem er bönnuð innan 16 ára sem við fórum að hugsa hvort við yrðum ekki að gera eitthvað í því.“

Niðurstaðan var að gera aðra mildari útgáfu enda eiga sumir leikaranna aðdáendur í yngri kantinum. „Algjörlega og þessi mynd mun væntanlega ekki fara fram hjá mörgum og örugglega fullt af krökkum sem vilja sjá hana þannig að það gæti skapast óþægileg pressa á fullt af foreldrum um að hleypa krökkunum sínum á mynd sem er bönnuð innan sextán þannig að ég held að þetta sé mjög góður valkostur.“

Næstum eins og í Hollywood

Leynilögga þykir ná útliti og áferð stórra Hollywood-hasarmynda glettilega vel þótt hún sé gerð fyrir smáaura í því stóra samhengi og Hannes segir að vissulega hafi þurft að halda vel á spöðunum til þess að þetta gæti gengið upp að láta hana líta út eins og Hollywood-mynd.

Leynilögga var frumsýnd í gær.

„Það er auðvitað þannig að peningarnir sem við vorum að vinna með eru bara brota-, brota-, brotabrot af því sem er verið að vinna með úti þannig að það er dálítil áskorun að reyna að búa til hasarmynd sem stenst slíkum myndum snúning og ég er ekki að segja að við gerum það endilega á öllum sviðum en það eru ákveðnir hlutir sem hægt er að láta líta eins út á Íslandi og í Hollywood með einni myndavél. Við reyndum að kreista hverja einustu krónu út úr því sem við höfðum og með vinnuframlagi og útsjónarsemi í vali á tökustöðum.

Sveppi og Auddi með athugulan aftursætisbílstjóra.
Fréttablaðið/Aðsend

Með klippingu, tónlist og öllum tækjum og tólum sem við höfðum úr að moða þá reyndum við að stækka myndina eins mikið og við mögulega gátum. Þannig að hún myndi einhvern veginn falla að því sem fólk er vant að sjá í svona bíómyndum.“

Smitandi orka

Hannes segir mestu hafa munað um að allir sem komu að myndinni lögðu líf og sál í hana og þannig hafi tekist að búa til mynd sem lítur út fyrir að vera töluvert umfangsmeiri en hún kostaði. „Það var alltaf gaman. Þetta var mjög erfitt á köf lum og ótrúlega þéttir dagar og mikill hraði en það sem kom okkur í gegnum þetta var bara stemningin á setti. Það er auðvitað margt af skemmtilegasta fólki landsins sem var að vinna í þessari mynd. Síðan var líka frábær stemning fyrir aftan myndavélina og fólk hafði gaman að því sem við vorum að gera. Það kom okkur yfir erfiðu hjallana hversu skemmtilegt þetta var og mér finnst sú jákvæða orka vera að skila sér á tjaldið,“ segir Hannes.

Vaknað við nýjan veruleika

„Þetta er náttúrlega ákveðin vitleysa að einhverju leyti. Eða þú veist, þetta er bara hasar, bílaeltingaleikir og eitthvað svona við íslenskrar aðstæður og fólk hefur mjög gaman af því,“ heldur Hannes áfram um myndina áður en hann er spurður hvað taki við nú þegar Leynilögga er komin alla leið. „Það er góð spurning. Við erum í rauninni að vakna upp við nýjan veruleika með þessa mynd og að hún sé að ná lengra en við reiknuðum með.

Við ætluðum ekkert að gera neitt meira en bara mynd sem fólk myndi hafa gaman af hérna á Íslandi. En núna er hún vonandi að opna einhverjar dyr erlendis og ég ætla bara að skoða hvaða möguleikar koma á borðið til mín og reyna að taka góða ákvörðun varðandi næstu skref. En ég veit ekki alveg hver þau verða.“