Listakonan María Guðjohnsen hefur getið sér gott orð fyrir hönnun sína en hún er ein af 45 listamönnum sem verða með listaverk á sýndarveruleika sýningu sem haldin verður á Times Square um áramótin.

María er búsett í Berlín í Þýskalandi þar sem hún lærði grafíska hönnun. Fyrir þremur árum færði hún sig alfarið yfir í þrívíddar hönnun á eigin spýtur og hefur verið að starfa við það síðustu ár.

Hún hefur bæði verið að setja upp sýningar í Berlín og hér á Íslandi. Verkið eftir Maríu sem sýnt verður á viðburðinum á Times Square er þrívíddar myndbandsverk.

Öðruvísi áramót

Í venjulegu árferði er mikið um dýrðir á Times Square í New York á gaml­árs­kvöld en hátt í milljón manns safn­ast sam­an á hverju ári á torg­inu og bíða eft­ir því að klukk­an slái 12 á miðnætti til að taka á móti nýju ári. Vegna kórónuveirunnar verður hins vegar enginn fögnuður um áramótin á Times Square en sýningin Virtual New Year's Eve kemur í staðinn fyrir áramótafögnuðinn og verður í beinu streymi. Áramótabolti Times Square mun því falla án áhorfenda í fyrsta skipti síðan árið 1907.

Draumur að sýna á Times Square

María segir það vera mikinn heiður að hafa verið beðin um að taka þátt en bandaríska listastúdíóið Studio As We Are höfðu samband við Maríu í gengum Instagram og buðu henni að vera með.

„Þau höfðu verið að fylgjast með verkunum mínum á Instagram. Mér fannst bara geggjað þegar þau höfðu samband. Ég var búin að segja við kærastann minn að það væri draumur að sýna verkin mín einn daginn á Time Square þannig það var bara eins og því kalli hafi verið svarað þegar þau höfðu samband við mig," segir María.

María sendi þeim nokkur verk og þau ákváðu hvað passaði best á sýningunni.

„Þetta heitir Virtual New Year's Eve og það það er búið að útbúa sýndarveruleika af Times Square svo að allir geti notið að fylgjast með fögnuðinum sem haldinn er þarna ár hvert án þess að þurfa að vera á staðnum. Fögnuðurinn verður bara í sýndarveruleika í ár til að koma í veg fyrir að fólk mæti á staðinn. Ég er mjög spennt að fá að taka þátt í þessu og fylgjast með sýningunni í beinni á gamlárskvöld."

Instagram mikilvægur vettvangur

María segir að Instagram sé mjög mikilvægur vettvangur fyrir listamenn í dag til að koma sér á framfæri.

„Því miður er maður frekar háður þessum miðli sem listamaður, sérstaklega í þessum þrívíddar listageira en ég fæ flest verkefni og vinnur út frá miðlinum. Það er stundum leiðinlegt að þetta sé eini staðurinn til að koma sér á framfæri en þetta borgar sig líka oft. Eins og í þessu tilfelli," segir María að lokum.