Vinnustofan ber nafnið Mid-Atlantic Keramik Exchange þar sem tuttugu og einn listamaður frá Íslandi, Bretlandi, Finnlandi, Kanada og Norður Ameríku vinna að gerð keramík verka. Sigurlína Osuala er alþjóðafulltrúi og deildarstjóri keramík deildar Myndlistaskólans. Hún skipuleggur vinnustofuna ásamt Andy Shaw sem er frá Bandaríkjunum. Sigurlína segir að fyrst og fremst hafi verið stefnt að því að koma evrópskum og amerískum listamönnum saman vegna mismunandi nálgunnar þeirra í keramík listinni. „Við vitum í rauninni ekki alveg hvað kemur út úr því en listamennirnir á vinnustofunni eru að styrkja tengslanetið svo þeir viti af fólki víðs vegar um heiminn.“

Vinnsla við gerð keramík muna tekur langan tíma enda er vinnustofan ein og hálf vika.

Sigurlína segir að stefnt sé að því að halda vinnustofuna annað hvert ár og stækka hóp listamannanna í hvert skiptið. „Það sem við erum í rauninni að gera er að búa til vettvang fyrir listamenn til að hittast og eiga samtal. Svo er það eiginlega undir þeim komið hvað gerist í framhaldinu. Það getur verið ýmislegt.“

Sigurlína segir að það sé áhugavert að fylgjast með tengslunum styrkjast milli sumra listamannanna og það séu fletir á samvinnu að koma í ljós. Markmiðið með tengslunum er fyrst og fremst að listamennirnir geta borið saman aðferðir, tækni og nálgun. „Sumir hafa verið að vinna nánar saman en aðrir enda er misjafnt hvað fólk er að takast á við.“

Fyrst og fremst er unnið með leir og búnir til allskonar nytjahlutir og skúlptúrar. „Við notum tækfærið að vera hér á Íslandi og leyfum listamönnunum að kynnast íslenskum jarðefnum. Þeir geta gert tilraunir með þau og prófað sig áfram.“

Listamennirnir fá að prófa sig áfram með íslensk jarðefni í keramík.

Annað kvöld verður sýning í Norræna húsinu á verkum og tilraunum sem voru unnar á vinnustofunni. Vinnustofan er búin að vera í gangi í eina og hálfa viku, enda eru vinnsla keramík muna langur ferill. „Það er alveg ótrúlegt hvað listamennirnir eru búnir að vera að gera. Bæði með tilraunum sínum og samtali sín á milli. Á sýningunni verða ýmsir hlutir sem þeir hafa verið að búa til, það geta verið tilraunir, tilbúin verk eða einhverskonar ferli.“

Á sýningunni verða pallborðsumræður, eða listamannaspjall, í gróðurhúsinu við Norræna húsið þar sem verður hægt að spyrja nokkra listamenn spjörunum úr. „Umræðunum verður stjórnað af Andy Shaw en sýningargestir geta líka spurt listamennina sjálfir.“ Fyrir utan það verða allir listamennirnir sem eru með verk til sýnis á staðnum og hægt að tala við þá.

Á sýningunni verða bæði tilbúin verk og tilraunir listamannanna.