Íslenskur strákur, Natan Dagur, hefur gert það gott í raunveruleikaþættinum The Voice í Noregi. Í myndbandi má sjá hann í fyrstu áheyrnarprufunni þar sem hann fær fullt hús stiga hjá öllum dómurum sem snúa sér við þegar hann syngur lagið Bruises með Lewis Capaldi.
Benedikt Viggósson, faðir Natans, segir í samtali við Fréttablaðið að viðtökurnar í salnum í áheyrnarprufunni hafi verið „alveg sturlaðar“. Hann getur ekkert gefið upp um framhaldið en segir að tökur á þættinum hafi hafist í september.
Þeir feðgarnir ferðuðust saman til Noregs til að taka þátt og hafa svo ekkert komið heim vegna vesens í kringum kórónuveiruna.
„Við ætluðum aftur heim en svo var svo mikið vesen í kringum COVID-19. Við bjuggum hérna áður og systkinin hans búa hér og tölum því norsku,“ segir Benedikt.
Fyrsta skipti á sviði
Hann segir að Natan Dagur hafi byrjað að syngja um 10 ára aldur en ávallt verið ögn feiminn. Hann hafi sem dæmi aldrei staðið á sviði að syngja áður en hann söng í The Voice.
„Hann stóð þarna og þetta var í fyrsta skipti sem hann stóð á sviði. Það var mjög stórt fyrir hann. Við erum búnir að búa saman lengi tveir og það hefur alltaf verið erfitt að fá hann til að syngja fyrir utan sturtuna,“ segir Benedikt og hlær.
Hann segir að bróðir Natans Dags hafi skráð hann í keppnina og Natan Dagur hafi ákveðið að slá til. Það hafi um þúsund skráð sig til leiks og svo hafi verið fækkað í um 100 í þessar „blindu áheyrnarprufur“ sem eru í myndskeiðinu.

Með allan pakkann
Fram kemur á norsku síðunni Tv2 að Natan Dagur sé 21 árs og upprunalega frá Íslandi. Hann hreif bæði dómara og áheyrendur en í myndbandinu má sjá að norski tónlistarmaðurinn Matoma hreinlega tárast yfir flutningi hans. „Ég á ekki orð,“ sagði Matoma um flutninginn.
Þá höfðu dómararnir orð á því að hann væri ótrúlega hæfileikaríkur og væri með allan pakkann. Hann hefði náð þeim í fyrstu laglínunni.
Fyrsti þáttur norska Voice verður frumsýndur í kvöld í Noregi klukkan 20 að staðartíma.