Reykvíski hjólabrettastrákurinn Alexander Guðmundsson gengur í hjólabretta-menntaskóla í Málmey í Svíþjóð og býr til eigin tónlist, á milli þess sem hann gengur tískupallana fyrir frægustu tískuhönnuði heims.

„Þegar ég lít um öxl var þetta auðvitað mjög skemmtilegt og mikill heiður, en að baki lá helluð vinna í hálfan mánuð, frá klukkan fimm á morgnana til miðnættis og stundum lengur, öll kvöld vikunnar. Þetta var í lok janúar og byrjun febrúar í fyrravetur, og ég var sárlasinn í viku af þessum tíma, mögulega með kórónaveiruna, en mikið af módelunum og starfsfólkinu varð mjög veikt. Ég var því of þreyttur og búinn á því til að spá í þetta þá,“ segir karlfyrirsætan Alexander Guðmundsson, um það þegar tískubiblían Vogue valdi hann á lista yfir topp tíu stjörnukarlmódelin á tískupöllunum fyrir um ári síðan.Alexander er 19 ára Reykvíkingur sem hefur undanfarin fimm ár búið í Kaupmannahöfn.

„Við fjölskyldan fluttumst búferlum til Danmerkur þegar mamma var á leið þangað í framhaldsnám og mig langaði í skeit-menntaskóla í Málmey í Svíþjóð,“ upplýsir Alexander, sem hefur gert ótrúlegar kúnstir á hjólabrettum frá barnsaldri og gerir enn í Brygg­eriets-menntaskólanum Svíþjóð, þangað sem hann tekur lest frá Danmörku á hverjum skóladegi.

Alexander í klæðnaði frá Craig Green fyrir veturinn 2020-2021 á tískuvikunni í París, þegar Vogue setti hann á lista yfir þau tíu karlmódel sem sköruðu fram úr. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Heppinn að njóta velgengni

Alexander var „uppgötvaður“ af núverandi umboðsmanni sínum þegar hann sat á kaffihúsi með vini sínum.

„Ég hafði þá aldrei velt módelstörfum fyrir mér en varð forvitinn og ákvað bara að slá til. Ég get ekki sagt til um hvort íslenskir karlmenn hafi eftirsóknarvert útlit fyrir hinn stóra tískuheim, en ég held að ég hafi „uppgötvast“ vegna þess að ég er skeitari og brettamennskunni fylgir ákveðið „street look“ sem hefur verið vinsælt,“ segir Alexander, sem hefur verið áberandi á tískupöllunum fyrir tískurisana Prada, Givency og Valentino.

„COVID-19 hefur haft ansi mikil áhrif á vinnuna mína og ég hef þurft að segja nei við flestum verkefnum, þar sem þau hafa verið í Mílanó og París. Nú nýlega hef ég samt náð að vinna fyrir Fendi, Jill Sander og Moncler,“ segir Alexander, sem er orðinn hinn vanasti á stærsta tískusviði heimsins.

„Jájá, ég mæli með fyrirsætu­starfinu fyrir íslenska stráka ef það er eitthvað sem þeir hafa áhuga á. Ég er ekki viss hvað maður þarf að hafa til að bera til að ná athygli og árangri í þessum bransa. Ég hef bara verið mjög heppinn að hafa gengið svona vel. Ég hef ekkert unnið í því sjálfur að koma mér á framfæri, en ég er með mjög duglegan umboðsmann sem líklega er það mikilvægasta.“

Alexander hefur gengið tískupallana fyrir marga af frægustu tískuhönnuðum heims, þar á meðal Prada, Givency, Valentino, Fendi, Jil Sander og Moncler. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Ekki er allt sem sýnist

Tíska hefur lengi verið Alexander hugleikin.

„Það er mikil tískuvitund í skeit-senunni og þess vegna hef ég alltaf spáð mikið í tískuna. Ég hef gaman að flottum fötum, en samt er ég voða lítið að pæla í tísku þessa dagana. Ég hef mjög mikinn áhuga á tónlist og það tók eiginlega yfir tískuáhugann, en ef ég þyrfti að skilgreina eigin fatastíl myndi ég lýsa honum sem blöndu af „street wear“ og „vintage“,“ segir Alexander.

Uppáhaldstískuhönnuður hans er Bandaríkjamaðurinn Matthew Williams.

„Ég hef nokkrum sinnum hitt Matthew en aldrei unnið fyrir hann. Ég á svo enga eftirlætis fyrirsætu, nema kannski Ewan Mock sem er atvinnu-skeitari og orðinn mjög vinsælt módel. Annars hef ég kynnst mjög skemmtilegum krökkum innan módelheimsins og ætli þau séu ekki öll orðin uppáhaldsmódelin mín,“ segir Alexander hress.

„Það fer svo alveg eftir því hvern þú spyrð, hvort módelstarfið og lífsstíllinn sem honum fylgir sé eftirsóknarverður. Hann er þó ekki eins og glansmyndin gefur til kynna og ég mundi ekki flokka hann sem lífsstíl hjá mér; þetta er bara eitthvað sem ég geri með skólanum fyrir smá vasapening!“

Alexander segir slatta af ókostum við starf fyrirsætunnar.

„En ég nenni ekki vera neikvæður og vil frekar hugsa um það skemmtilega í vinnunni, sem er að ferðast og kynnast nýju fólki. Þegar frístundir gefast nota ég svo tímann til að skeita mér til skemmtunar og bý til tónlist.“

Alexander skellir upp úr, spurður hvort hann þurfi að passa vel upp á mataræðið, hreyfingu og reglusamt líferni til að fá að bera nýjustu klæðin fyrir stærstu tískuhús heimsins.

„Nei, ég held að ég sé of ungur til þess að þurfa að pæla í því núna, en kannski eftir fimm ár!“

Framtíðarplönin eru að mestu óljós.

„Það var svo algjörlega óvart hvernig ég datt inn í þennan bransa, en ég gæti vel hugsað mér að halda áfram sem módel í nokkur ár og fara síðan í nám. Svo kem ég heim einn daginn. Ég sakna Íslands oft, og þá sérstaklega vina minna heima á Íslandi.“

Fylgist með Alexander á Insta­gram @alexander.gudmundsson