Íslenskir samkvæmisdansarar hafa verið sigursælir á dansmótum erlendis í sumar. Ný rós bættist í hnappagatið um helgina þegar dansparið Nicolò Barbizi og Sara Rós Jakobsdóttir lentu í öðru sæti í International Open Standard og í því sjöunda í latin á alþjóðlegu dansmóti sem fór fram í Toyko síðastliðna helgi.

Dansararnir Alex Gunnarsson og Ekaterina Bond dönsuðu til sigurs í CTC World Cup keppninni sem fór fram í Taipei þann 7.júlí þar sem þau unnu flokkinn amateur ballroom. Parið hefur margsinnis unnið til verðlauna bæði hér heima og erlendis. 

Dansframtíð þjóðarinnar er björt eins og glöggt má sjá á árangri ungra íslenskra samkvæmisdansara á nýafstöðnum mótum í sumar. 

Dansparið Kristinn Þór Sigurðsson og Lilja Rún Gísladóttir fengu þrenn verðlaun í alþjóðlegu Danza Cervica keppninni sem fór fram á Ítalíu í lok júní. Þau gerðu sér lítið fyrir og sigruðu í latin dönsum í undir 19 ára og urðu jafnframt í fjórða sæti í ballroom í sama flokki þriðju verðlaunin fengu þau fyrir annað sætið í latin dönsum í undir 21 árs keppnisflokki.

Íslensku keppendur voru sigursælir á Ítalíu í öllum flokkum og gáfu yngstu dansararnir þeim eldri ekkert eftir en parið Sverrir Þór Ragnarsson og Ágústa Rut Andradóttir hrepptu fyrsta sætið í ballroom dönsum í flokki tólf ára og yngri.