Sam­kvæmt niður­stöðum nýrrar könnunar þekkingar­fyrir­tækisins Prósents hafa 36 prósent Ís­lendinga horft á alla þættina af Kötlu á Net­flix og 20 prósent byrjað að horfa á þá. Um 29 prósent Ís­lendinga telja að þau muni horfa á þættina og að­eins 15 prósent ætla senni­lega ekki að horfa á þá.

Fleiri konur hafa horft á þættina en karlar, en 41 prósent kvenna höfðu klárað alla þættina en að­eins 31 prósent karla.

Graf/Prósent

Fólk á landsbyggðinni ánægðari en á höfuðborgarsvæðinu

Meiri­hluti svar­enda telja þættina vera góða, en á kvarðanum 1-5 gáfu Ís­lendingar þáttunum 4 í ein­kunn. Af þeim sem höfðu horft á þættina, þá töldu 78 prósent þættina vera mjög eða frekar góða, 15 prósent töldu þá vera hvorki góða né slæma og 7 prósent töldu þá vera mjög eða frekar slæma. Lítill munur var á milli hópa, en konum finnst þættirnir betri en karlar og fólki á lands­byggðinni finnst þættirnir einnig vera betri en fólki á höfuð­borgar­svæðinu.

Graf/Prósent

Gífurlega vinsælir á Norðurlöndum

Því er ljóst að lands­menn eru ekki sam­mála gagn­rýnandanum Jóni Viðari Jóns­syni sem var lítt hrifinn af þáttunum og gagn­rýndi þá harð­lega á Face­book-síðu sinni.

Kötlu er leik­stýrt af Baltasar Kormáki og var þátta­röðin frum­sýnd í heild sinni á Net­flix þann 17. júní síðast­liðinn. Þættirnir hafa vakið mikla at­hygli bæði innan­lands og er­lendis en sam­kvæmt lista síðurnar FlixPa­trol eru þættirnir einna vin­sælastir í Noregi, Sví­þjóð, Dan­mörku, Pól­landi, Finn­landi og Króatíu.