Langflestir landsmenn vilja tómatsósu, steiktan lauk og sinnep sem meðlæti á pylsu í pylsubrauði. Þetta er niðurstaðan í nýrri könnun sem MMR lét framkvæma á dögunum 23. til 28. júlí á þessu ári. Heildarfjöldi svarenda var 951 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Pylsan, eða pulsan, er einn vinsælasti skyndibiti landsmanna og eru flestir með sterkar skoðanir á hvað ætti að fara á hana, hvort sem það er ein með öllu eða Bill Clinton pylsan, bara með sinnepi.

Klassíska meðlætið reyndist ofarlega í huga landsmanna en alls kváðust 91 prósent þeirra sem tóku afstöðu vanalega fá sér tómatsósu, 85 prósent kváðust fá sér steiktan lauk, 74 prósent pylsusinnep, 66 prósent remúlaði og 60 prósent hráan lauk.

Talsvert færri vildu fá óhefðbundið meðlæti samkvæmt MMR; 18 prósent fá sér sætt sinnep, 7 prósent kartöflusalat og 17 prósent eitthvað annað.

Jólin 2018, ferðamenn bíða í röð fyrir utan pylsuvagn Bæjarins Beztu við Tryggvagötu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ein með öllu vinsæl

Landsmenn halda í hefðir með samsetningu á pylsum en nærri fjórðungur, eða 23 prósent, vilja helst fá sér eina með öllu, pylsu með tómatsósu, remúlaði, pylsusósu, hráum og steiktum lauk. Svo eru nokkrir sem fá sér eina með öllu ásamt viðbótarmeðlæti, alls 8 prósent af þeim sem svöruðu könnuninni.

Þá kváðust 9 prósent fá sér eina með öllu en sleppa hráum lauk, 6 prósent eina með öllu nema remúlaði og 6 prósent kváðust sleppa bæði hráum lauk og remúlaði.

Spurt var: „Hvað, ef eitthvað, af eftirtöldu færð þú þér vanalega með pylsu í pylsubrauði?“
MMR

En hvort á meðlætið heima ofan á eða undir pylsunni? Meirihluti svarenda þótti klárt mál að tómatsósa (77 prósent), steiktur (95 prósent) og hrár laukur (94 prósent) ætti heima undir pylsunni. Minni samstaða reyndist um um staðsetningu pylsusinnepsins, tveir af hverjum þremur sögðust kjósa að hafa pylsusinnepið ofan á pylsunni (65 prósent) en tæpur fjórðungur kvaðst vilja það undir (23 prósent).

Skiptar skoðanir reyndust einnig á hvar rétt væri að staðsetja remúlaðið og kváðust 42 prósent svarenda vilja hafa það undir pylsunni en önnur 42 prósent ofan á henni.

Á remúlaði að fara ofan á eða undir pylsuna?
Fréttablaðið/Stefán Karlsson