Aðsókn í kvikmyndahús hefur stóraukist seinustu tvær helgar. Fyrri helgina var 166% aukning á gestum í kvikmyndahúsum landsins frá því helgina á undan. Síðastliðna helgi var sú stærsta frá upphafi kórónuveirufaraldursins en þá var aftur 61% aukning á gestum.

„Síðustu tvær helgar hafa verið bestu helgarnar í bíó síðan að kóvid skall á,“ segir Þorvaldur Árnason framkvæmdarstjóri SAMfilm. „Það hefur sýnt sig að fólk er orðið sérstaklega þyrst að komast í bíó.“

Seinasta ár var erfitt fyrir kvikmyndahús og afleiðingar af kórónuveirunni, samkomutakmarkanir og lokanir, höfðu veruleg áhrif á starfsemi þeirra um allan heim. Þá ákváðu margir erlendir kvikmyndaframleiðendur að fresta frumsýningum nýrra kvikmynda sökum ástandsins. Framboð af nýjum erlendum kvikmyndum var því lítið sem ekkert.

„Það er búið að vera mjög gott að gera núna. Loksins eru að berast nýjar stórar myndir og myndir sem hafa verið frestaðar og sem fólk hefur verið að bíða eftir,“ segir Þorvaldur.

Fimm kvikmyndir voru frumsýndar seinustu tvær helgar. Fyrri helgina voru það myndirnar A Quiet Place: Part 2 og Cruella og síðastliðna helgi bættust svo við The Conjuring: The Devil Made Me Do It, teiknimyndin Croods: Ný öld og íslenska gamanmyndin Saumaklúbburinn.