„Ég hef einfaldan fatastíl og er dagsdaglega látlaus til fara, oftar en ekki í svörtu, sem er ófrumlegt en svona er það nú samt. Ég er því alls ekki jafn litrík í tauinu og hönnun mín segir til um, en ég dáist að fólki sem þorir að klæðast litríkum og skrautlegum flíkum,“ segir fatahönnuðurinn Helga Björnsson.

Helga bjó frá táningsaldri og þar til fyrir fáeinum árum í París. Þar starfaði hún í hartnær þrjá áratugi sem aðalhönnuður franska tískuhússins Louis Féraud.

„Það sem situr eftir er reynslan og áhrif hátískuheimsins í París. Þegar ég lít til baka sé ég að hann hefur breyst mikið og er ekki sá sem hann var þegar ég vann í honum. Það voru mikil forréttindi að vinna við hlið Louis Féraud, en ég skildi það ekki þá og þótti sjálfsagt. Þar var maður með undursamleg gæðaefni sem maður dró af ströngum og klæddi á gínur og hugsaði aldrei um hvað þau kostuðu en viðlíka efni fást ekki hvar sem er í heiminum. Það situr líka í mér handbragðið og vinnubrögðin á saumastofunum og allir sem komu að hönnun hátískuhússins með bróderaðar blúndur, eðalsteina og fjaðrir. Maður gat bara hringt og beðið um hvað sem manni datt í hug til að skreyta klæðin, en hönnuðir gera ekki neitt einir síns liðs og þurfa á öllu þessu fólki úr rótgrónum fyrirtækjum sem höndla með djásn og dýrmæti á að halda,“ segir Helga þegar hún lítur um öxl.

Töfrandi litadýrð einkennir hönnun Helgu, jafnvel þótt hún reyni að leggja upp með annað. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Hún segir Íslendinga geta lært margt af Fransmönnum þegar kemur að tísku, sem og Frakkar af Íslendingum.

„Íslendingar eru eins og ung­lingar; ferskir og djarfir í klæðaburði, á meðan Frakkar hugsa stíft um reglurnar, hvaða liti má ekki nota saman og efni sem eru engan veginn í stíl,“ segir Helga og heldur áfram:

„Reyndar tala ég frekar um Parísarbúa því París hefur breyst, en stíl Frakka má lýsa sem einföldum elegans. Þeir eru ekki sérstaklega frumlegir í klæðaburði en afar smekklegir, pæla mikið í réttri litasamsetningu og búa við rótgróna menningu sem byggist á mikill þekkingu á efnum. Ég hef lært mikið af Frökkum í gegnum líf mitt og starf í París; þar sem gömul menning bætir smám saman við sig en er stundum svo rótgróin að mann langar að kasta sprengju til að hrista upp í hlutunum. Hvort tveggja hefur sinn sjarma, þetta rótgróna og hið nýja og það er gaman að blanda því saman.“

Í Atelier vinnur Helga að fjölbreyttri hönnun sinni í opinni vinnustofu og í búðinni er meðal annars hægt að fá gullfallegar slæður Helug, litrík listaverk hennar sem og aðra listmuni sem hún hefur skapað af sínu fagra auga og listfengi.

Slæður hæstmóðins nú

Helga opnaði í gær búð og opna vinnustofu undir franska nafninu Atelier sem á íslensku þýðir vinnustofa. Búðin er á horni Ingólfsstrætis og Bankastrætis 10 og er gengið beint inn af götunni á bláhorninu.

„Ég hafði ekki hugsað út í möguleikann á að opna búð eða vinnustofu fyrr en mér bauðst þessi frábæra staðsetning fyrir tilviljun fyrir skemmstu. Ég hugsa hana sem pop-up í byrjun en kannski lifir hún lengi. Það er allt í mótun og kemur í ljós, en Áslaug Snorradóttir hjálpaði mér sérstaklega að skapa töfra fyrir opnunina. Nú er líka sérlega skemmtilegur tími til að opna búð mitt í miðbæ Reykjavíkur sem hefur verið daufur og líflaus á Covid-tímum en nú er komið frískandi vor og allt að lifna við í bænum,“ segir Helga sem býr líka í miðbænum og kann því vel að geta sest inn á kaffihús til að fylgjast með mannlífinu og götustemningunni.

„Ég vil ekki segja neitt gott um Covid en veiran hefur þó kennt okkur að kunna betur að meta hlutina eftir langan tíma leiðinda. Það er sannarlega góður skóli.“

Í Atelier fæst gullfalleg hönnun Helgu, þar á meðal guðdómlegar slæður og tískuteikningar hönnuðarins sem eru sönn híbýlaprýði.

„Slæður eru hæstmóðins í tískuheiminum núna, ekki síst hjá yngri konum sem binda þær um höfuðið og um sig á alls konar hátt. Slæður þykja ekki lengur eins kerlingarlegar og unga fólkinu þótti lengi vel, en slæðurnar mínar eru bæði stórar til að sveipa um sig og minni til að nota sem hálsklúta, og oft þarf ekki nema eina litríka slæðu til að lífga upp á heildarmyndina,“ segir Helga.

Slæðurnar hennar Helgu eru hver og ein einstakt og litríkt listaverk. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Helga er spurð hvort hönnun hennar beri sérkenni.

„Ég mun sennilega aldrei geta stillt mig um að setja fullt af litum í hönnun mína og jafnvel þótt ég byrji með það í huga að hafa flíkina látlausa og litfáa koma litirnir nú samt. Búðin ætti reyndar að heita Síbreytilega búðin því hönnun mín er svo síbreytileg,“ svarar Helga og hlær.

„Undanfarið hef ég horfið aftur í tímann til hönnunar sem ég gerði fyrir löngu hjá Louis Féraud en þar ríkti andrúmsloft sem mér finnst bæði viðeigandi og skemmtilegt nú. Þegar ég vann hjá Féraud var Ísland ekki beinlínis rauður þráður í minni hönnun en henni fylgdi andi sem var ekki jafn hefðbundinn og franskur og hinir höfðu. Því var eins og Ísland blandaðist saman við það franska, en svo varð ég fyrir áhrifum frá hátískuheiminum og lærði á hann, sem var skemmtilegt. Um tíma var ég því öðruvísi svo maður verður víða fyrir áhrifum, og það er satt að tískan fer í hringi. Slæður sem ég hef gert í gegnum árin hafa aftur komist í tísku og mér finnst ég ganga í eilífa hringi, þótt alltaf sé einhver breyting á því sem kemur aftur í tísku,“ segir Helga og nefnir Yves Saint Laurent, Karl Lagerfeld hjá Chanel og Christian Lacroix meðal áhrifavalda sinna á Parísarárunum.

Helga segir vissa menningu felast í því að klæða sig fallega og hafa fegurðarsmekk. Því skapi fötin manninn upp að vissu marki. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Aldrei alveg búin

Helga er spurð hvort fötin skapi manninn.

„Já og nei. Það skiptir máli hvernig maður klæðir sig og fólk er oftar en ekki dæmt út frá því hvernig það lítur út og fötunum sem það klæðist. Þá er viss menning í því að klæða sig fallega og hafa fegurðar­smekk,“ svarar Helga.

Hún segir Reykjavík að vissu leyti vera tískuborg.

„Hún er auðvitað ekki stórborg í samanburði við París og í litlu þjóðfélagi eru margir svipaðir til fara, eðlilega. Mér finnst áhugi á tísku þó mikill hér heima og mjög margt fallegt og skemmtilegt til.“

Flesta hönnunargripi sína sér Helga sér fyrir hugskotssjónum.

„Hugmyndirnar eru í kolli mínum og þær fara eiginlega aldrei þaðan. Þær banka upp á og um leið og ég byrja á nýju verkefni, eins og bíll sem hrekkur í gang. Þannig varð ég strax skapandi sem barn. Ég dvaldi í eigin draumaheimi og smíðaði heilu húsin í huganum.“

Helga segir erfitt að koma auga á það sem hún er stoltust af á ferlinum.

„Í seinni tíð hef ég hannað búninga fyrir leikhús og nýt þess mjög, kannski vegna þess að þegar ég var hjá Louis Féraud var öll mín hönnun í hans nafni en ekki mínu. Í leikhúsinu er það bara ég, enginn sem segir mér til og ég er frjálsari. Það er skemmtileg viðbót við hátískuna. Annars er ég reyndar aldrei nógu ánægð með neitt, sem er týpískt fyrir hönnuði sem alltaf vilja gera betur. Ég er aldrei alveg búin!“