„Ég hef aldrei verið í svona miklum hita,“ segir María Kristjánsdóttir en hún og fjölskylda hennar eru stödd á Spáni að heimsækja systur hennar sem býr þar. Mikil hitabylgja hefur geisað á Spáni síðustu vikur. Hæsti hiti vikunnar á Spáni er um 46 gráður.
„Systir mín býr í Valladolid og það er svaka hitabylgja þar akkúrat núna, hitinn er í kringum 40 til 41 gráða þar núna. Þetta er fáránlegt, það er ekki líft,“ segir María.
Valladolid er við miðjan Spán, en hitabylgjan hefur verið hvað mest þar. „Við ákváðum að taka smá ferðalag til norður Spánar rétt á meðan veðrið var sem heitast í Valladolid,“ segir María og bætir við að hitinn sé samt um 30 gráður þar sem þau eru stödd núna.
Hæsti hitinn á Spáni það sem af er viku mældist í gær í borginni Almonte, þar fór hitinn upp í tæpar 46 gráður.
„Fólki er ráðlagt að halda sig inni á milli eitt og sex á daginn, því fólk getur hreinlega dáið í þessum hita,“ segir María.
„Við erum svo týpískir Íslendingar, maður vill vera úti í sólinni líka,“ segir María og nefnir hversu lélegt sumarið hefur verið á Íslandi. „Manni finnst eins og maður sé að tapa á því að vera ekki úti ef maður er inni yfir þennan heitasta tíma,“ bætir hún við.
Mágur Maríu er Spánverji, og María segir hann vera duglegan að skamma þau ef þau eru of lengi í sólinni. „Svo við fylgjum þeim, það hefur verið að bjarga okkur,“ segir hún.

María segist vera heppin að systir hennar búi í blokkahverfi sem umlykur sundlaug. „Við erum rosalega dugleg að nýta hana til að kæla okkur,“ segir hún.
María segir alla vera búna á því eftir daginn í þessum hita. „Maður hrynur í rúmið,“ segir hún. „Litli strákurinn minn gerir ekkert nema að sofa, hann hefur enga orku í að halda sér vakandi.“
Hún segist þó hafa verið snjöll og keypti viftur á Íslandi sem hún tók með til Spánar. „Því við getum ekkert sofið á nóttunni nema það sé stöðugur blástur inni í herbergi,“ segir hún og tekur fram að hitinn fari lægst í 28 gráður á nóttunni.