„Ég hef aldrei verið í svona miklum hita,“ segir María Kristjáns­dóttir en hún og fjöl­skylda hennar eru stödd á Spáni að heim­sækja systur hennar sem býr þar. Mikil hita­bylgja hefur geisað á Spáni síðustu vikur. Hæsti hiti vikunnar á Spáni er um 46 gráður.

„Systir mín býr í Valla­dolid og það er svaka hita­bylgja þar akkúrat núna, hitinn er í kringum 40 til 41 gráða þar núna. Þetta er fá­rán­legt, það er ekki líft,“ segir María.

Valla­dolid er við miðjan Spán, en hita­bylgjan hefur verið hvað mest þar. „Við á­kváðum að taka smá ferða­lag til norður Spánar rétt á meðan veðrið var sem heitast í Valla­dolid,“ segir María og bætir við að hitinn sé samt um 30 gráður þar sem þau eru stödd núna.

Hæsti hitinn á Spáni það sem af er viku mældist í gær í borginni Almonte, þar fór hitinn upp í tæpar 46 gráður.

„Fólki er ráð­lagt að halda sig inni á milli eitt og sex á daginn, því fólk getur hrein­lega dáið í þessum hita,“ segir María.

„Við erum svo týpískir Ís­lendingar, maður vill vera úti í sólinni líka,“ segir María og nefnir hversu lé­legt sumarið hefur verið á Ís­landi. „Manni finnst eins og maður sé að tapa á því að vera ekki úti ef maður er inni yfir þennan heitasta tíma,“ bætir hún við.

Mágur Maríu er Spán­verji, og María segir hann vera dug­legan að skamma þau ef þau eru of lengi í sólinni. „Svo við fylgjum þeim, það hefur verið að bjarga okkur,“ segir hún.

Fjölskylda Maríu hefur nýtt sundlaug í garði systur hennar til hins ýtrasta.
Mynd/Aðsend

María segist vera heppin að systir hennar búi í blokka­hverfi sem um­lykur sund­laug. „Við erum rosa­lega dug­leg að nýta hana til að kæla okkur,“ segir hún.

María segir alla vera búna á því eftir daginn í þessum hita. „Maður hrynur í rúmið,“ segir hún. „Litli strákurinn minn gerir ekkert nema að sofa, hann hefur enga orku í að halda sér vakandi.“

Hún segist þó hafa verið snjöll og keypti viftur á Ís­landi sem hún tók með til Spánar. „Því við getum ekkert sofið á nóttunni nema það sé stöðugur blástur inni í her­bergi,“ segir hún og tekur fram að hitinn fari lægst í 28 gráður á nóttunni.