„Ég bara trúði því ekki að þetta væri hann. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá nafnið var bara hvað það væri óheppilegt fyrir tónlistarmann að heita John Paul Jones! Nei, nei, nei! Svo fattaði ég bara að þetta er hann,“ segir Elías Helgi Kofoed Hansen, handritshöfundur kvikmyndarinnar And Anne, um fyrstu viðbrögð sín við því að John Paul Jones ætli að semja tónlistina fyrir myndina.Jones, sem vitaskuld er þekktastur sem bassaleikari hinnar goðsagnakenndu rokkhljómsveitar Led Zeppelin, semur tónlistina með hljómsveitinni Snoweye, sem hann stofnaði árið 2017.

Sveitin hefur aðeins komið saman örfáum sinnum á tónleikum þannig að hér er um allnokkur tíðindi að ræða.

Spennandi teymi

Elías getur að öðru leyti lítið sagt um verkefnið enda myndin enn í svokallaðri forframleiðslu þótt línur séu óðum að skýrast.

Tim Kaza leikstýrir myndinni en hann framleiddi myndina Iceland Is Best sem kom út árið 2020 og vakti nokkra athygli en heldur blendin viðbrögð.And Anne gerist á Íslandi og fjallar um Anne sem reynir að komast yfir áfall úr æsku og býr til ímyndaða vininn Mani, manninn í tunglinu, til að einangra sig og skapa sér öruggan veruleika.

„Þetta er virkilega spennandi teymi þarna á bak við,“ segir Elías sem sjálfur bjó í Bandaríkjunum þegar hann skrifaði handritið.Breska leikkonan Issy Knopfler fer með hlutverk Anne og ástralski leikarinn Dan Ewing fer með hlutverk Mani. Þá fer Jesse Heiman, einn frægasti bakgrunnsleikari allra tíma, með stóra rullu í myndinni.

Honum hefur brugðið fyrir í mýflugumynd í ýmsum þáttum og kvikmyndum eins og Big Bang Theory, NCIS, Entourage, The O.C, The Social Network og Van Vilder, svo fátt eitt sé nefnt.

Skrifað á rúntinum

„Ég fór til Los Angeles að læra handritaskrif og bjó síðan aðeins í Bandaríkjunum eftir það.

Það var einmitt á því tímabili sem ég skrifaði þessa mynd og þá bjó ég í húsbíl og keyrði um landið. Myndin gerist einmitt ansi mikið í svona húsbíl og þá átti myndin að gerast í Bandaríkjunum,“ segir Elías sem tekið hefur þátt í verkefnum hérlendis eins og Svörtu söndum og Venjulegu fólki.

Hann segir að eftir samráð við framleiðsluteymið hafi verið ákveðið að gera Ísland að sögusviði myndarinnar. „Ég skoðaði það og hún varð eiginlega bara miklu betri fyrir vikið. Það hentaði mjög vel af því að ég var að flytja aftur til Íslands þannig ég bara endurskrifaði það hér og þá fór þetta að rúlla.“

Elías Helgi Kofoed Hansen, handritshöfundur kvikmyndarinnar And Anne.