Ís­land fór upp í veð­bönkum eftir seinni æfingu Daða og Gagna­magnsins. Þau voru sátt við sig eftir æfingu. Felix Bergs­son, farar­stjóri hópsins, sagði að­spurður á blaða­manna­fundi að Ís­lendingar væru full­færir um að halda keppnina á næsta ári, hún þyrfti þó ekki endi­lega að fara fram í Reykja­vík.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá lauk hópurinn sinni annarri æfingu á stóra sviðinu nú í há­deginu. Daði segist vera á­nægður með frammi­stöðuna en enn eigi eftir að fín­pússa ýmsa hluti.

Ís­land rauk upp í veð­bönkum að nýju eftir æfinguna, eða um heil tvö sæti. Landið fór í 4. sæti og er komið upp fyrir Búlgaríu, sem þarf að sætta sig við að vera spáð 6. sæti þegar þetta er skrifað. Það var ekki langlíft en eftir fyrstu æfingu Ítala rauk Ítalía upp og er þeim nú spáð 3. sæti en Íslandi því fimmta.

Lára vinnu­heitið

Á blaða­manna­fundi eftir æfinguna voru þau Daði og Árný spurð að því hvernig Lára hefði það. Eins og al­þjóð man eftir til­kynnti Árný það með pompi og prakt að ó­fædd dóttir þeirra skyldi heita Lára.

Þau sögðu að Lára hefði það gott. „En þetta er svona vinnu­heiti,“ svaraði Árný blaða­manninum í gríni. Á fundinum sagði hópurinn að dansinn í at­riðinu væri flóknari en hann liti út fyir að vera. Hann væri hins­vegar kominn í vöðvaminnið.

„Fyrir Gagna­magnið vorum við ekki dansarar,“ segir Daði. Þar hafi orðið breyting á, þau séu orðin það núna. „Ég skora á at­vinnu­dansara að dansa Gagna­magns­dansinn,“ segir hann léttur.

Þá var Felix spurður að því, eins og áður segir, hvort að Ís­land gæti haldið keppnina. Það stóð ekki á svörum hjá Felix sem benti á að for­svars­menn Euro­vision hefðu skoðað að­stæður hér á síðasta ári og litist vel á.

„Það þyrfti ekki endi­lega að vera í Reykja­vík, það eru fleiri bæir á Ís­landi,“ sagði Felix þá að­spurður að því hvort að Reykja­vík væri þá á­fanga­staður næsta árs.

Á einungis hálftíma fór Ísland upp í 4. sæti samkvæmt veðbönkum og svo aftur niður í það fimmta eins og sjá má hægra megin.
Fréttablaðið/Samsett