Sigur Íslands er ekki eina leiðin fyrir Íslendinga til að halda Eurovision.

Keppnin gæti farið fram á Íslandi á næsta ári standi annaðhvort Ástralía eða Úkraína uppi sem sigurvegarar í keppninni. Aðstæður á Íslandi hafa verið teknar út til eftirfylgni og staðfestingar.

Úkraína trónir enn á toppi allra veðbanka og framlag þeirra hefur þótt líklegast til sigurs frá því að öll framlög Evrópuþjóða voru staðfest í keppninni.

Sama hvernig fer er ólíklegt að Eurovision fari fram í Úkraínu á næsta ári og er því líklegt að mörg lönd bjóðist til að halda keppnina fyrir þeirra hönd.

Samtök evrópska sjónvarpsstöðva, EBU hafa ítrekað lýst yfir stuðningi, tiltrú og trausti til smærri keppnisþjóða og hefur mikill áhugi verið fyrir því að halda keppnina á Íslandi.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá árið 2020, barst beiðni frá Ástralíu um að Eurovision skuli haldið á Íslandi fari svo að Ástralía vinni keppnina. Samkvæmt núgildandi reglum EBU er ekki hægt að halda Eurovision í Ástralíu.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir að umrætt samkomuleg sé enn óljóst og að engir opinberir samningar séu í gildi.

Treysta smærri keppnisþjóðum

Er mikill áhugi hjá EBU um að leyfa minni löndum að halda keppnina, til að sýna að það sé hægt?

„Heldur betur já. EBU hefur ítrekað lýst yfir stuðningi, tiltrú og trausti til okkar smærri keppnisþjóða. Og aðstæður heima verið teknar rækilega út því til eftirfylgni og staðfestingar,“ segir Skarphéðinn í samtali við Fréttablaðið.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er Egilshöll líklegasta staðsetningin fyrir hátíðina, verði hún haldin á Íslandi.

Önnur undankeppni Eurovision fer fram í kvöld en þar stígur Sheldon Riley á svið og flytur lagið Not the same fyrir hönd Ástralíu.

Úkraína og Ísland komust áfram í fyrri undankeppninni sem fór fram í fyrradag og koma fram í aðalkeppninni næsta laugardag.