Ísland mun að öllum líkindum keppast um stig við Portúgal að mati stofnanda opinberrar vefsíðu Eurovision keppninnar.

Jan Demulder, einn helsti Eurovision sérfræðingur Evrópu og upphafsmaður Eurovision.tv, fékk fyrst áhuga á Eurovision þegar hann sá keppnina í litasjónvarpi heima hjá vinum foreldra sinna í Belgíu. Þá átti fjölskyldan bara svart hvítt sjónvarp á æskuheimilinu og var þá algjörlega nauðsynlegt að kíkja til fjölskylduvina til að horfa á þessa mögnuðu keppni.

Jan hefur farið á allar Eurovision keppnir frá árinu 2000 og byrjaði sjálfur að birta myndbandsblogg frá hátíðinni sem varð fljótt mjög vinsælt. EBU hafði að lokum samband við hann og bað hann um að halda utan um vefsíðu Eurovision sem hann hefur gert öll ár síðan þangað til í ár, en í þetta sinn ætlar hann að njóta þess að horfa á keppnina.

Jan hefur fylgst með Eurovision frá barnsaldri.
Mynd: Aðsend

Hann ræddi við Fréttablaðið um allt það helsta í keppninni í ár. Ljóst er frá upphafi viðtalsins að Jan er mikill Eurovision sérfræðingur. Hann man vel eftir því þegar Ísland tók fyrst þátt í keppninni með Gleðibankanum.

„Ég man svo vel eftir silfur jakka íslensku söngkonunnar og stóru kúlurnar sem hún var með utan um úlnliðina,“ segir Jan en að sjálfsögðu er hann að tala um Helgu Möller í söngflokknum Icy.

Gleðibankinn var fyrsta framlag Íslands.

Aðspurður um framlag Íslands í ár, Með hækkandi sól eftir Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttir, eða Lay Low, í flutningi Systra, segir hann 50 prósent líkur að Ísland komist upp úr riðlinum.

„Það er aðeins of hægt fyrir minn smekk en ég elska að heyra íslenska tungumálið. Ég held að það sé sterkasta hlið lagsins, að þær syngi á íslensku og sömuleiðis hversu góðar söngkonur þær eru,“ segir Jan.

„Þetta er ekki sterk undankeppni. Að mínu mati eru bara þrjú lög sem komast pottþétt upp úr fyrri riðlinum. Noregur, Úkraína og Litháen.Þð er mikil óvissa með restina. Ef Ísland kemst ekki í topp 10 í undakeppninni þá verður það út af Portúgal. Þau sem elska framlag Íslands elska líka framlag Portúgals.“

Þá vekur athygli að Portúgal er einmitt uppáhalds atriði Systra og Felix Bergsson er líka hrifinn af laginu. Hann greindi frá því í viðtali í Eurovision þætti Fréttablaðsins, Júró með Nínu og Ingunni.