Fram­lag Ís­lands í Euro­vision þetta árið, lagið 10 Years með Daða og Gagna­magninu, hafnaði í 4. sæti Euro­vision þetta árið. Sannar­lega góður árangur og raunar sá besti síðan Jóhanna Guð­rún Jóns­dóttir flutti lagið Is It True? í Moskvu árið 2009 og hafnaði í 2. sæti.

Ísland hefur einu sinni áður í sögu keppninnar hafnað í 4. sæti en það gerðist síðast árið 1989 þegar Stjórnin keppti fyrir hönd Íslands í Sviss með lagið Eitt lag enn. Það ár vann einmitt Ítalía og Frakkar enduðu í 2. sæti eins og í ár.

Það voru Ítalir sem unnu sigur þetta árið með lagið Zitti en buoni í flutningi rokksveitarinnar Måneskin. Veðbankar höfðu spáð Ítölum sigri og höfðu þeir betur eftir æsispennandi atkvæðagreiðslu.

Eftir að atkvæði dómnefnda höfðu verið kunngjörð var lag Íslands í 5. sætinu með 198 stig en framlag Sviss var í efsta sætinu með 267 stig. Athygli vekur að ítalska lagið var í 4. sætinu eftir að dómnefndaratkvæðin höfðu verið kynnt og aðeins átta stigum á undan Daða og Gagnamagninu.

Þegar niðurstöður símakosningarinnar voru kynntar breyttist aftur á móti staðan. Ítalir fengu langflest stig og samtals 534 stig. Frakkar urðu í 2. sæti með 499 stig, Sviss í 3. sæti með 432 stig og Ísland í því fjórða. Þar á eftir komu svo Úkraína, Finnland, Malta, Litháen, Rússland og Grikkland.

Sigurlag Eurovision 2021: