„Ég er bara á röltinu og í einhverjum svona erindagjörðum, að reyna að sleikja upp blaðamenn og svona,“ segir rithöfundurinn og leiðsögumaðurinn Þórarinn Leifsson, Tóti Leifs, laufléttur í bragði.

Tóti sendi nýlega frá sér leiðsögukrimmann Út að drepa túrista og bókin gengur betur en hann reiknaði með.

„Það gengur bara vel og ég er rosa bissí. Og af því að ég er leiðsögumaður er ég að skipuleggja hvað ég er að gera í nóvember og desember, setja mig inn í norðurljósabransann sem er farinn á hundrað,“ segir Tóti.

„Það er aðallega það. Að titill bókarinnar komi í textanum hjá þér, það er aðalatriðið,“ segir strangheiðarlegur rithöfundurinn sem staddur var hjá Forlaginu að ná sér í fleiri bækur til að selja.

„Það gengur alltof vel. Spurning líka, af því ég er ekki vanur velgengni, hvernig ég á að höndla þetta? Ég er vanur að vera lúser og kann ekkert á þetta hlutverk. Þannig kannski flý ég til útlanda eða tek rosa mikið af eiturlyfjum. Ég veit það ekki,“ segir hann hlæjandi.

„Æ, þú veist hvernig þetta er, þetta er upp og niður, upp og niður. Hringdu í mig í desember, þá vill enginn tala við mig. Þú getur sett upp svona dálk, fyrir og eftir, ógeðslega glaður 1. nóvember og á algjörum bömmer 15. desember! Það væri brilljant.“