Ísland er meira en Reykjavík. Ísland er líka úti á landi. Dæmi eru um dreifbýl svæði þar sem hvert einasta gistirými er nú bókað og uppselt. Fréttablaðið og sjónvarpsstöðin Hringbraut eru á ferð um landið og er sama hvar borið er niður í samtölum við gesti okkar.

„Við erum hér vegna hinnar stórfenglegu náttúru,“ segja þeir.

Á sama tíma reyndi einn gesturinn inngöngu í guðshúsið Húsavíkurkirkju. Það var lokað en kom kannski ekki mikið að sök, því haldið hefur verið fram að almættið sé á kreiki þessa dagana úti í náttúrunni á íslensku hásumri.

Einn er þó sá kúnnahópur sem vart hefur látið sjá sig úti á landi í sumar. Þessi hópur er við sjálf.

„Það vantar alveg Íslendingana, sagði kona á Húsavík.

„Ætli það séu ekki bara allir úti á Spáni þar sem fólk er að steikjast?“ sagði önnur.

„Leiðindaveður? Er ekki betra að vera í tíu gráðum en fjörutíu gráðum?“ sagði sú þriðja.