Grínistinn Helgi Steinar er á fljúgandi siglingu með Cold as Icelandic-uppistand sitt á Fringe-listahátíðinni í Edinborg. Þar treður hann upp daglega og hingað til hefur verið uppselt á allar sýningar hans og margir hafa þurft frá að hverfa.

„Þetta er mun meira en ég bjóst við,“ segir Helgi Steinar í samtali við Fréttablaðið þar sem hann stendur í mannahafinu og steikjandi hita á Princes Street í Edinborg.

„Þetta er í annað skipti sem ég tak þátt í þessari hátíð en við Ari Eldjárn vorum hérna í fyrra. Þá var ég bara með átta sýningar. Vildi bara kynna mér þetta aðeins,“ segir Helgi Steinar sem tók allan pakka í ár og treður upp daglega alla hátíðina til ágústloka.

„Það hefur verið uppselt á fyrstu átta sýningarnar hjá mér og salurinn fyllist alltaf strax þannig að það hefur þurft að vísa fólki frá.“

Helgi Steinar segir ekki spilla fyrir að Ísland er mjög í tísku um þessar mundir meðal annars eftir alla athyglina í kringum HM. „Ég held bara að fólk hafi mikinn áhuga á að sjá eitthvað frá Íslandi og ég hef líka komist að því að margir sem koma á sýninguna hafa ferðast til Íslands,“ segir Helgi Steinar og bætir við að þegar hann spyrji út í sal hvort einhver þar hafi komið til Íslands svari oft um það bil helmingurinn játandi.

Steinar ólst að hluta til upp í Bandaríkjunum og bjó fimm ár í Kína þannig að alþjóðlegur blær er yfir sýningunni þótt kjarninn sé íslenskur. Sjálfur segist hann vekja mesta lukku þegar hann bregður fyrir sig alls konar hreimum og gerir fjölþjóðlegt grín að fólki.

Halarófa af Íslendingum

Helgi Steinar segir að hann og Ari Eldjárn hafi furðað sig á því i fyrra hversu fáir íslenskir grínistar hafi áttað sig á því hversu umfangsmikil og öflug Fringe-hátíðin í Edinborg er.

„Þetta er náttúrlega stærsta listahátíð í heimi og fólk kom bara alveg af fjöllum. Undirbúningurinn er eðlilega mikill og tímafrekur þannig að maður þarf að sækja um í febrúar þótt hátíðin sé ekki fyrr en í ágúst,“ segir Helgi Steinar sem gekk frá sinni bókun í tæka tíð og leyfir öðrum íslenskum grínistum að njóta þess.

„Margir uppistandarar heima gerðu sér ekki grein fyrir þessu en langaði að koma þannig að ég bauð nokkrum að koma bara með mér og taka fyrstu fimm mínúturnar. Þórhallur Þórhallsson kom fyrstu vikurnar og tók fimm mínútur fyrir mig og það koma einhverjir fjórir eða fimm aðrir sem ætla að hjálpa mér með þetta.

Maður tekur bara sitt eigin upphitunarlið með sér, segir Helgi Steinar og hlær. Það er gaman að hafa einhvern til að hita upp fyrir mann og ekki síður líka að leyfa þeim að smakka aðeins á Fringe. Þeir eru búnir að skemmta sér alveg konunglega.“

Heitur í hitabylgjunni

Edinborg hefur ekki sloppið við hitabylgjuna sem hefur legið yfir Evrópu í sumar og gestum á sýningu Helga Steinars hefur gengið misvel að draga andann í þrengslunum og svækjunni.

„Það er svo heitt hérna. Sýningin er niðri í kjallararými og það myndast svo mikill hiti þarna niðri að á fyrstu sýningunni leið yfir gæja í fremstu röð. Það var alveg yfirfullt á sýningunni, miklu fleiri en við áttum von á og það varð svo heitt þarna. Bara út af fjöldanum,“ segir Helgi Steinar sem brást skjótt við og kom fyrir tveimur viftum í salnum.