Leifur var að gefa út nýja matreiðslubók, Tuttugu og fimm, þar sem hann gefur uppskriftir að vinsælum uppskriftum frá Norður-Ítalíu. Fyrir 20 árum gaf Leifur út bókina Primavera sem seldist upp og hefur verið ófáanleg. Aðdáendur La Primavera ættu því að fagna þessari nýju bók. „Ég hef mikið verið spurður um eldri bókina og fékk stöðugt hvatningu til að gera aðra bók. Ég lét slag standa en í þessari bók eru nokkrar uppskriftir sem voru í eldri bókinni auk fjölda nýrra,“ segir hann.

Leifur gaf sömuleiðis út bókina Ítalskir réttir með Hagkaup árið 2007 sem einnig var mjög vinsæl. „Ég heyri það mjög oft að fólk sé enn að elda rétti sem voru í þessum bókum. Sérstaklega hef ég heyrt þetta oft eftir að ég opnaði La Primavera aftur í Marshall-húsinu úti á Granda,“ segir hann.

Með sögu og sérstakan kúltúr

Þegar Leifur er spurður hvort Ítalir séu mikil ísþjóð, svarar hann: „Heldur betur. Þeir eru með gelato sem er ekki eins rjómakenndur og ekki eins feitur og sá ís sem við þekkjum hér á landi. Hann er þéttari í sér, oft bragðmeiri og ávaxtaríkur. Ísinn er eitthvað sem Ítalir tóku með sér í gamla, gamla daga frá fjarlægum löndum. Fyrsta ísgerðin var á Sikiley. Það er sérstakur kúltúr í kringum ítalska ísinn. Vinir og fjölskylda koma saman og njóta þess að fá sér ís í sumarhitanum. Þeir nota hráefni úr sínu eigin nágrenni í ísinn, eins og ber, sítrónur, ávexti, súkkulaði, möndlur og hnetur.“

Ítalir eru ekki eins og Íslendingar í ísbíltúrum. Þeir setjast á bekk með ísinn og njóta hitans og mannlífsins í kring. „Þeir þekkja ekki bragðaref né að setja sælgæti í ísinn. Mest eru þeir með ávexti. Hvert þorp eða hérað hefur sína útgáfu af ísnum og íbúar eru afar stoltir af ísgerðinni. Það er keppni um besta ísinn og stundum sér maður skilti á vegg sem stendur að þarna hafi verið valinn besti ís í heimi. Þeir eru mjög stoltir af ísnum sínum,“ segir Leifur. „Ísgerðin er öflug iðngrein á Ítalíu og þar er framleitt mikið af ísvélum og öðrum tækjum og tólum sem þarf til.“

Espresso með ís og ítalskt biscotti. ?Dásamlegt saman.

Einfalt hráefni

Ís er oft á borðum sem eftirréttur á ítölskum heimilum og þeir setja hann til dæmis út í kaffi eins og Leifur gefur hér uppskrift að. „Það er vinsælt að bjóða nokkrar gerðir af ís eftir matinn ásamt öðrum hefðbundnum eftirréttum. Ítalir eru miklir matmenn eins og tíðkast við Miðjarðarhafið. Þeir leggja mikla áherslu á mat úr héraði, sem er hollur og einfaldur að útbúa. Frakkar eru með flóknari matargerð. Þeir nota fá hráefni og það þarf svo lítið til að gera góðan disk. Ítalskur matur er mjög vinsæll hér á landi eins og víðast hvar í heiminum. Þetta er matargerð sem heillar flesta.“

Leifur segir að La Primavera hafi verið vel tekið og alltaf nóg að gera þótt vissulega hafi Covid sett strik í reikninginn hjá honum eins og á öðrum stöðum. „Það eru margir sem vilja njóta aðventunnar með því að fara út að borða. Við opnuðum annan stað í Hörpu í byrjun hausts og höfum opið þar þegar viðburðir eru í Eldborg. Okkur hefur líka verið vel tekið þar og við, eins og aðrir, hlökkum til þegar samkomutakmörkunum verður aflétt og lífið kemst aftur í sitt venjulega horf. Það er mikið bókað fram í tímann og það verður mikið um að vera þegar fólk getur farið að lifa eðlilegu lífi.

Leifur gefur hér uppskriftir úr nýju bókinni. Biscotti, sem eru mjög vinsælar kökur á Ítalíu, og ís í espresso sem gaman er að smakka.

Biscotti

Þessar stökku, tvíbökuðu kökur eru góðar einar og sér eða til að bera fram með ís. Einnig er gott að dýfa biscotti í kaffi eða vin santo.

250 g hveiti

0,5 msk. lyftiduft

125 g heilar hýðislausar möndlur

75 g dökkt súkkulaði (gróft saxað)

2 egg

1 eggjarauða

225 g sykur

3 appelsínur (bara börkurinn)

Þeytið eggin, eggjarauðuna og sykurinn vel saman. Blandið öllum þurrefnunum saman við og mótið í fjórar lengjur á smurðri ofnplötu. Bakið við 170°C í um það bil 20 mínútur.

Takið kökurnar út og látið kólna aðeins. Skerið síðan í sneiðar, um sentimetra á breidd, og raðið á ofnplötu þakta smjörpappír.

Bakið við 100°C í 60 mínútur. Þessar kökur geymast vel í lokuðu íláti.

Vanilluís með espresso Affogato

Affogato er ljúffengur réttur þar sem heitu espresso-kaffi er hellt yfir vanilluís. Svo ótrúlega einföld og auðveld leið til að gleðja fólk. Með þessum einfalda rétti er gott að bera fram biscotti.

4 vanilluískúlur

4 einfaldir espresso

Setjið ísinn í glas. Hellið kaffinu yfir. Já, og þá er það komið. Einfalt, ferskt og gott.