Hulda er vitaskuld mætt í eyjuna fögru en keppni hófst þar á fimmtudag og stendur yfir alla helgina.

„Við reiknum með hörkuspennandi keppni á glæsilegum velli þeirra Eyjamanna. Aðstaðan hér er frábær. Það er búið að stækka golfskálann, barna- og unglingastarfið er frábært og bæjaryfirvöld eru með góðan stuðning,“ sagði Hulda í samtali við Fréttablaðið.

Hulda segir að ekkert lát sé á fjölgun iðkenda í golfinu hér á landi.

„Nýjustu tölur staðfesta að enn fjölgar þeim kylfingum á Íslandi sem kjósa að skrá sig í golfklúbba. Milli áranna 2021-2022 varð 5 prósent fjölgun og í dag eru skráðir um 23.500 iðkendur í golfi á Íslandi. Þegar rýnt er nánar í tölur kemur í ljós að fjölgunin er mest í yngstu aldurshópunum upp að 19 ára aldri og endurspeglar sú þróun þá markvissu og öflugu vinnu innan golfklúbbanna að fjölga ungu fólki, tryggja endurnýjun iðkenda og um leið að tryggja þátttakendur í keppnishaldi þeirra yngri í golfíþróttinni. Maður var svolítið spenntur að sjá iðkendatölurnar eftir Covid af þeirri ástæðu að það voru allir heima og ekki að fara í golfferðir til útlanda. Íþróttin er gríðarlega vinsæl og það eru fleiri og fleiri sem vilja kynna sér hana,“ segir Hulda.

Erum með puttann á púlsinum

Almenningur hefur hópast á golfvelli landsins og Hulda segist meðvituð um að oft reynist vera erfitt að fá hreinlega rástíma.

„Við erum alveg með puttann á púlsinum að fylgjast með. Á álagstímum er erfitt að komast að. Eftirspurnin eftir því að komast í golf er gríðarleg en golfvellirnir hér á landi eru margir og ég veit til þess að klúbbar fyrir utan höfuðborgarsvæðið, eins og á Reykjanesi, fyrir austan fjall og vestur fyrir Hvalfjarðargöng eru enn þá spenntir fyrir því að taka á móti fleiri kylfingum.“

Það bárust heldur betur ánægjuleg tíðindi á dögunum þegar Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR gerði sér lítið fyrir og sigraði á Evrópumeistaramóti 16 ára og yngri, European Young Masters, sem fram fór í Finnlandi. Sigurinn var sögulegur þar sem þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur kvenkylfingur sigrar á þessu móti.

„Þetta var magnað hjá henni. Hún er 15 ára gömul og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Það er gaman að segja frá því að völva Vikunnar spáði því að það kæmi fram rísandi stórstjarna í kvennagolfinu. Það eru margir rosalega góðir hlutir að gerast í afreksstarfinu. Til að mynda ná ekki allir að taka þátt í Íslandsmótinu í ár og ekki síst í karlaflokki þar sem þeir eru erlendis að keppa á mótum.“

Hulda hefur setið í embætti forseta Golfsambandsins frá því í nóvember í fyrra en hún tók við því af Hauki Erni Birgissyni og varð um leið fyrsta konan til að gegna forsetaembættinu.

„Þetta er búinn að vera mjög ánægjulegur tími og maður fyllist gríðarlegu stolti að sjá hversu vel golfklúbbarnir halda utan um starf golfhreyfingarinnar í heild sinni á Íslandi. Það er sama hvert maður kemur á landsbyggðina. Alls staðar er unnið mjög metnaðarfullt starf þar sem fólk brennir af áhuga að bjóða fleiri að spila og vera með í sportinu. Það hefur gefið mér mikið að fá að kynnast fólkinu aðeins betur sem starfar við golf á Íslandi í dag og auðvitað öllum kylfingunum.“

En hvernig stendur forsetinn sig sjálfur með kylfurnar?

„Ég náði á dögunum mínum besta hring og það í sjálfu meistaramóti. Mikið spil er að skila sér hjá forsetanum. Forgjöfin stendur í 12,3 núna. Maður er að para fleiri holur og einstaka fuglar detta inn.“